Erlent

For­sætis­ráð­herrann sem sakaður er um aðild að morði segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Thomas Thabane tók við embætti forsætisráðherra Lesótó árið 2017.
Thomas Thabane tók við embætti forsætisráðherra Lesótó árið 2017. Getty

Thomas Thabane, hinn umdeildi forsætisráðherra Afríkuríkisins Lesótó, hyggst segja af sér í dag. Thabane staðfesti þetta í samtali við AFP í gær.

Hinn áttræði Thabane segir afsögnina tengjast því að hann sé kominn til ára sinna, en þrýst hefur verið á hann að segja af sér vegna ásakana um að tengjast morðinu á fyrrverandi eiginkonu hans.

Thabane og núverandi eiginkona hans, Maesaiah, eru sökuð um að aðild að morðinu. Maesaiah hefur formlega verið ákærð í málinu, þó að það eigi ekki við um Thomas Thabane sjálfan enn sem komið er.

Lipolelo Thabane og forsætisráðherrann stóðu í skilnaði þegar hún var skotin til bana fyrir utan heimili sitt árið 2017, tveimur dögum fyrir embættistöku Thabane.

Samsteypustjórnin í Lesótó sprakk nýverið eftir að þrír af fjórum stjórnarflokkum sögðu skilið við stjórnina. Til stóð að Thabane myndi leiða bráðabirgðastjórn til 22. maí, en þrýst hefur verið á forsætisráðherrann að hverfa úr embætti fyrr.

Konungur landsins, Letsie þriðji, konungur mun formlega þurfa að samþykkja afsögn Thabane, en flokkur forsætisráðherrans hefur tilnefnt fjármálaráðherrann Moeketsi Majoro sem næsta forsætisráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×