Fótbolti

Amiens fer í mál við frönsku deildina eftir að liðið var fellt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allt bendir til þess að Amiens leiki í frönsku B-deildinni á næsta tímabili.
Allt bendir til þess að Amiens leiki í frönsku B-deildinni á næsta tímabili. getty/Sylvain Lefevre

Amiens hefur ákveðið að leita réttar síns eftir að liðið féll úr frönsku úrvalsdeildinni.

Tímabilið í Frakklandi var flautað af í lok síðasta mánaðar. Paris Saint-Germain voru krýndir meistarar en þeir voru með tólf stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar. Amiens og Toulouse féllu úr úrvalsdeildinni og Lorient og Lens tóku sæti þeirra.

Forráðamenn Amiens eru afar ósáttir við að liðið hafi fallið og segja ákvörðunina afar ósanngjarna. Amiens var í nítjánda og næstneðsta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á eftir liðinu í 18. sæti (Nimes) þegar tíu umferðum var ólokið.

„Ákvörðunin er refsing frá deildinni. Hún er ósanngjörn. Við erum neyddir til að berjast og fara með málið fyrir dómstóla til freista þess að þessari ósanngjörnu ákvörðun verði breytt,“ sagði Bernard Joanin, forseti Amiens.

Fyrr í þessum mánuði lagði Amiens fram beiðni um að franska deildin myndi breyta ákvörðun sinni að fella tvö neðstu lið úrvalsdeildarinnar. 

Amiens lagði til að tvö neðstu liðin myndu halda sætum sínum í úrvalsdeildinni, tvö efstu lið B-deildarinnar myndu fara upp og franska úrvalsdeildin yrði því skipuð 22 liðum en ekki 20 á næsta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×