Innlent

Réðst á lögregumenn með hnífi

Málflutningi í máli Steindórs Einarssonar, sem meðal annars er sakaður um sérlega hættulega líkamsárás á tvo lögregluþjóna í júní í fyrra og endur-teknar líflátshótanir í garð barnsmóður sinnar, lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í júní í fyrra réðst Steindór á tvo lögregluþjóna með hnífi þegar þeir voru kallaðir til vegna þess að Steindór hafði framið spjöll á eignum fyrrverandi tengdafólks síns og barnsmóður sinnar. Steindór er sakaður um að hafa kastað steini gegnum rúðu á húsi tengdafólks síns og rispað bíl þess. Þá er Steindór sakaður um að hafa lagt til annars lögregluþjónsins sem mætti á staðinn, með hnífi í nárastað með þeim afleiðingum að gat kom á buxur og nærföt. Lögreglumennirnir sluppu ómeiddir. Steindór er sagður hafa með árásinni stofnað lífi og heilsu lögreglumannsins í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt. Þá er Steindór ákærður fyrir tvær líflátshótanir, þar af aðra á hendur barnsmóður sinni, og eina hótun um ofbeldi. Hótanirnar voru sendar ýmist bréfleiðis eða með SMS-skilaboðum úr farsíma Steindórs. Líflátshótunin sem Steindór sendi barnsmóður sinni með SMS-skilabðum var svohljóðandi, að nöfnum slepptum: „Hæ X ef ad tú leyfir mér ekki ad sjá X og X aftur dá skal ég skjóta tig í hausinn 2 eda 3 desember og dá ertu daud og ég líka og dá eiga X og X ekki pabba eða mömmu bæ bæ." Hina líflátshótunina sendi Steindór í ódagsettu bréfi sem sett var inn um bréfalúgu hjá foreldrum barnsmóður Steindórs. Hún var svohljóðandi, að nöfnum slepptum: „Ef að X hringir ekki í mig næsta föstudag þá ert þú dauður hringdu í X og talaðu við hann ég á kúbein og klippur og haglabyrsu ég nota þettað næstu helgi ef að X hringir ekki á föstudag þitt er valið..." Steindór neitar sök.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×