Erlent

Þjóð­verjar vilja opnun landa­mæra innan ESB þann 15. júní

Atli Ísleifsson skrifar
Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, á blaðamannafundi í morgun.
Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, á blaðamannafundi í morgun. Getty

Þýsk yfirvöld hyggjast opna landamærin að Austurríki, Lúxemborg, Sviss og Frakklandi á laugardaginn. Þetta sagði innanríkisráðherrann Horst Seehofer á blaðamannafundi í morgun.

Seehofer segir að áfram verði eftirlit á landamærunum en að einungis verði um tilviljanakennt eftirlit að ræða. Stefnt yrði að algerri opnun landamæra landsins þann 15. júní næstkomandi, og sagðist hann vona að íbúar í aðildarríkjum ESB gætu ferðast óáreittir milli aðildarríkjanna um miðjan næsta mánuð.

Seehofer sagði þýsk yfirvöld í raun reiðubúin að opna landamærin að Danmörku á ný en að ákvörðunar danskra stjórnvalda sé beðið. Opnunin kunni að tengjast samráði Dana, Svía og Norðmanna um opnun landamæra, þannig að opnunin myndi eiga sér stað á sama tíma. 

Þýski innanríkisráðherrann sagði ennfremur að svo kynni að fara að landamærum yrði lokað á ný færi svo að bakslag verði í baráttunni gegn útbreiðslu kórónuveirunnar.

Mette Frederiksen, forsærisráðherra Danmerkur, sagði í gær að tilkynning um opnun landamæra myndi í síðasta lagi berast fyrir næstu mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×