Skoðun

Með heila­hristing á heilanum

Ingunn S. Unnsteinsdóttir Kristensen skrifar

Um þessar mundir stendur yfir stór rannsókn á Heilahristingi meðal íþróttakvenna á Íslandi. Að rannsókninni standa ýmsir aðilar frá Háskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands og Landspítalanum. Á fyrstu stigum rannsóknarinnar tóku rúmlega 500 konur þátt og stendur gagnasöfnun enn yfir. Þar sem hin alþjóðlega Heilavika (e. Brain Awareness Week ) fer nú fram er tilvalið að staldra við og spyrja sig „Veit ég hvað heilahristingur er?“.

Heilahristingur er skilgreindur sem vægur heilaáverki, en þannig hugsum við kannski ekki oft um heilahristing. Heilahristingur hefur orðið þegar högg kemur á líkama eða höfuð, sem veldur hreyfingu á heilanum í höfuðkúpunni, sem leiðir til einkenna. Þessi einkenni geta m.a. verið höfuðverkur, svimi, ljós- og/eða hljóðfælni, óskýr sjón, minnisleysi, þreyta, streita og/ eða depurð. Ekki þurfa öll einkenni að koma fram og þau þurfa ekki að koma fram þegar í stað. Ólíkt því sem margir halda þá þarftu ekki að missa meðvitund, þú þarft ekki einu sinni að fá högg beint á höfuðið þar sem högg á líkamann getur leitt til heilahristings. Einkenni vara langoftast í stuttan tíma en þau geta varað lengur og haft ótvíræð áhrif á lífsgæði og getu til að taka þátt í því sem var eðlilegt fyrir meiðslin. Heilahristingur hefur verið tengdur við vanlíðan, kvíða og þunglyndi, verri hugræna getu og truflun á hormónastarfsemi. Rétt eins og á við um önnur meiðsli er mikilvægt að komast undir hendur fagaðila eftir heilahristing og fá aðstoð og leiðbeiningar um hver næstu skref eiga að vera.

Heilahristingur meðal íþróttamanna er töluvert algengari en meðal almennings. Við ákveðna íþróttaiðkun eru auknar líkur á að hljóta högg á höfuð eða líkama sem getur síðan leitt til heilahristings. Íþróttamenn eru því í meiri hættu að hljóta höfuðmeiðsl sem geta haft mikil áhrif á þeirra lífsgæði. Einhverjir velta því kannski fyrir sér af hverju einhver ætti vísvitandi að auka líkur á heilaáverka. Í fyrsta lagi megum við ekki gleyma því að íþróttir eru heilsueflandi. Líkamsræktin, hver svo sem hún er, verður oft stór hluti af lífi fólks og styrkir það ekki síður félaglega en líkamlega og andlega. Í öðru lagi þá sýna rannsóknir að það eru ekki allir meðvitaðir um afleiðingar heilahristings, né þekkja einkenni eða hvernig heilahristingur getur átt sér stað. Rannsóknir hafa sýnt að það eitt að birta skilgreiningu á því, hvað heilahristingur er, hefur áhrif á það hvernig fólk svarar því hvort það hafi fengið heilahristing. Þetta bendir til vanþekkingar á heilahristingi. Þessi vanþekking á þó ekki einungis við íþróttafólk og rannsóknir hafa einnig sýnt að stundum skortir heilabrigðisstarfsfólk þekkingu. Í BS ritgerð Jóhanns Inga Guðbergssonar við Háskólann í Reykjavík kemur í ljós að rétt um helmingur aðspurðra leitaði sér læknisaðstoðar eftir að hafa fengið heilahristing. Helmingur þeirra sem leitaði sér læknisaðstoðar töldu síðan þær leiðbeiningar sem þeir fengu ófullnægjandi.

Það er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um mögulegar afleiðingar heilahristings og hvar ber að gera í kjölfar hans. Það er mikilvægt að kenna viðeigandi viðbrögð en það er einnig mikilvægt að fækka atvikum þar sem heilahristingur getur orðið. Auðvitað er ekki nein ein leið sem mun virka fyrir allar íþróttir og í einhverjum tilvikum eru aðstæður sem auka líkur á heilahristing stór hluti af „leiknum“. Það er tékkað í hokkí, skallað í fótbolta og þú færð á þig högg á líkama og í höfuð í boxi og MMA. Svo ekki sé minnst á áhættu sem óhjákvæmilega fylgir öðrum íþróttum eins og að detta á skíðum eða hjóli. Í slíkum tilvikum er afar mikilvægt að þeir sem stunda íþróttirnar séu meðvitaðir um mögulegar afleiðingar. Sama á við um alla aðra sem að málum koma, þjálfara, stuðningsteymi og aðstandendur. Gríðarlega mikilvægt er að allir þekki einkennin og hvernig bregðast beri við þeim, fylgist með breytingum og þróun í meðferðarúrræðum, og auðvitað að tilvikum þar sem heilahristingur getur orðið sé haldið í lágmarki eins og unnt er.

Heilahristingur er talin vera vangreindur og ekki er ástæða til að ætla að þessu séu öðruvísi farið hér á Íslandi. Það hljóta ekki allir heilahristings við að fá högg og í langflestum tilvikum jafnar fólk sig á nokkrum dögum. Fyrir þá sem eru í aukinni hættu á fá heilahristing, og endurtekna þar að auki, og eru þar með í aukinni hættu á að fá langvarandi einkenni skiptir miklu máli að viðeigandi meðferðarúrræði séu í boði. Einnig þurfa réttar upplýsingar að vera aðgengilegar og að þeir sem koma að málum sé vel upplýstir og leiti sér þekkingar. Í dag ættu allir að spyrja sig „Veit ég hvað heilahristingur er?“ og ef svarið var „nei“, eða „kannski“ í upphafi þessa lesturs er von að lesendur séu nú einhverju nær.

Höfundur er doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×