Athygli vakti við uppfærslu tölulegra gagna á Covid.is í gær að á meðan flestar tölur lækkuðu þá fjölgaði fólki hér á landi í sóttkví um 133. Um var að ræða fólk sem var að koma til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll eða Norrænu.
Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason lögreglufulltrúi sem fer fyrir smitrakningateyminu vegna kórónuveirunnar. Í gær var fimmti smitlausi dagurinn í röð, virkum smitum fækkaði og enn fjölgaði í hópi þeirra sem lokið höfðu sóttkví. Því kom mörgum spánskt fyrir sjónir að fólki í sóttkví fjölgaði.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í þetta á upplýsingafundinum í dag en hafði ekki svör á reiðum höndum. Vísaði hann á smitrakningateymið þar sem Ævar Pálmi er í forsvari.
Hann segir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða blöndu af fólki sem er búsett á Íslandi, hefur verið búsett á Íslandi eða var að koma hingað til lands vegna vinnu. Allir sem koma til landsins þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví en stefnt er að því að bjóða upp á skimun við komuna til landsins 15. júní. Sleppur fólk þá við sóttkví ef það greinist ekki með veiruna.