Innlent

Ríkissáttasemjari boðar til fundar í kjaradeildu hjúkrunarfræðinga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mikið álag hefur verið á starfsfólki á Landspítalanum undanfarnar vikur.
Mikið álag hefur verið á starfsfólki á Landspítalanum undanfarnar vikur. Vísir/Vilhelm

Ríkissáttasemjari hefur ákveðið að kalla samninganefndir ríkisins og hjúkrunarfræðinga til fundar á mánudaginn. Tíu dagar eru síðan aðilar funduðu síðast.

Hjúkrunarfræðingar hafa verið án samnings frá því í lok mars í fyrra. Hjúkrunarfræðingar hafa sagt langt á milli samningsaðila, einkum í því sem snýr að launaliðnum.

Um mánaðamótin kom til aðgerðar niðurfelling svokallaðs vaktaálagsauka hjúkrunafræðinga sem svaraði til tuga þúsunda króna. Aðgerðin var boðuð í haust og var hluti af umfangsmiklum sparnaðaraðgerðum á Landspítalanum.

Hjúkrunafræðingar hafa lýst yfir mikilli óánægju með að vaktaálgsaukinn hafi dottið út um mánaðamótin einmitt þegar álag hafi aldrei verið meira í starfi vegna kórónuveirufaraldursins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist í samtali við fréttastofu í hádeginu leggja áherslu á það á hverjum degi að samið verði við hjúkrunarfræðinga. Það sé í raun „lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag“ að stéttin búi við kjarasamning sem hún geti unað við.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á upplýsingafundi síðdegis að hann og fleiri stjórnendur heilbrigðisstofnana hefðu sent ráðherra bréf og lýst yfir áhyggjum af stöðunni. Landlæknir sagði það sama á upplýsingafundinum í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×