Innlent

Dæmdur fyrir alvarlegt kynferðisbrot

Maður á fimmtugsaldri var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðdsómi Reykjavíkur í gær fyrir að hafa samfarir við 32 ára þroskahefta stúlku. Maðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi konunnar á þeim tíma sem brotið átti sér stað.

Konan segir manninn hafa gengið á eftir sér að fara heim með honum þrátt fyrir að hún hefði í fyrstu neitað. Hann hafi ekið henni að Hjálpræðishernum, þar sem hann hafi búið. Þrátt fyrir neitanir hennar hafi hann haft við hana samræði. Hún hefði sagt "stórt nei" við hann en það hefði ekkert þýtt. Kvað hún sér hafa liðið "dálítið illa í hjartanu" eftir þetta.

Maðurinn hélt því fram að hann hefði haft fullt samþykki hennar og hann hafi ekki notfært sér þroskahölun hennar, en fötlun konunnar er alvarleg og augljós. Vitsmunaþroski hennar er eins og hjá 5 til 7 ára gömlu barni að mati sérfræðinga.

Maðurinn, sem starfaði sem stuðningsfulltrúi, átti að veita fötluðum starfsmönnum aðstoð og leiðbeiningar eftir þörfum varðandi vinnuna, félagslega þætti og sjálfshjálp. Í starflýsingu segir að honum beri að hafa hagsmuni fatlaðra starfsmanna í fyrirrúmi og vera vakandi fyrir líðan þeirra.

Það er mat dómsins að manninum gæti ekki dulist konan hefði ekki yfir að ráða andlegum styrk til að standast þrýsting um kynmök af hálfu manns sem hún treysti og var leiðbeinandi hennar.

Hann er ekki sagður eiga sér nokkrar málsbætur og er dæmdur í tveggja ára fangelsi. Vegna alvarleika brotsins þótti ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×