Innlent

Nærri því 75.000 skráð sig í rakningaforritið

Kjartan Kjartansson skrifar
Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna föstudaginn 3. apríl 2020.
Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna föstudaginn 3. apríl 2020. Lögreglan

Viðtökur Íslendinga á smitrakningasmáforriti sem embætti landlæknis gaf út í gær hafa verið framar vonum embættisins, að sögn landlæknis. Nærri því 75.000 manns hafa nú sótt sér smáforritið sem á að auðvelda smitrakningateymum að rekja ferðir fólks sem greinist með kórónuveiruna.

Alma Möller, landlæknir, greindust frá notendatölunum á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag. Á miðnætti í gær hafi um 23.500 notendur síma með Android-stýrikerfi sótt sér forritið og 25.600 notendur Apple-síma. Í dag hafi enn fleiri bæst við og viti embætti til þess að fjöldi notenda sé nú kominn vel á áttunda tug þúsunda.

„Þetta er framar okkar vonum,“ sagði Alma sem þakkaði hugbúnaðarfyrirtækjum sem gáfu vinnu sína til að hægt væri að koma forritinu í loftið á mettíma.

Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri hjá embætti landlæknis, sagði Vísi fyrr í dag að unnið væri að því að leysa úr ýmsum smávægilegum hnökrum sem hefðu komið upp. Uppfærsla væri væntanleg á morgun og forritið yrði gert aðgengilegt alls staðar í heiminum svo að þeir sem eru með síma skráða erlendis geti nálgast það.

Þá stendur til að senda skilaboð í alla síma á landinu með beinum hlekk á forritið, líklega strax á morgun, að sögn Inga Steinars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×