Innlent

Skúli vill 1. eða 2. sætið í Suðurkjördæmi

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands.
Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands.
Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, hefur ákveðið að gefa kost á sér 1. - 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Fréttatilkynning Skúla:

,,Nú eru gerðar kröfur um breytingar í stjórnmálum á Íslandi. Það er lýst eftir fólki sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu til að takast á við erfið verkefni framundan. Það þarf kjark og áræði til að vinna að stefnumótun og viðreisn hins nýja Íslands. Það þarf traust til að uppbyggingin megi takast sem best.

Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að takast á við þetta krefjandi framtíðarverkefni. Þess vegna hef ég ákveðið í samráði við góða félaga mína að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar. Ég ráðfærði mig m.a. við forystufólk í stéttarfélögunum í Suðurkjördæmi, sem telja mikilvægt að rödd úr röðum verkalýðshreyfingarinnar heyrist á Alþingi. Ég er og hef verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, stærsta landssambands ASÍ í 6 ár. Ég er bæði lögfræðingur og lýðheilsufræðingur. Ég bý að langri reynslu úr atvinnulífinu og úr velferðarkerfinu hérlendis og erlendis og hef víðtæka þekkingu á málefnum launafólks. Ég hef starfað mikið á norrænum og evrópskum vettvangi m.a. sem sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í lýðheilsumálum.

Þegar tekist er á um velferð þjóðarinnar er þekking og reynsla mikilvægt veganesti. Ég hef engra sérhagsmuna að gæta, eingöngu hagsmuna fólksins í landinu. Það eru mínar ástæður. Ég sækist eftir 1 . eða 2. sætinu í prófkjöri flokksins þann 7. mars n.k. undir kjörorðunum þekking, reynsla, kjarkur, traust.

Á vefsíðu minn www.skuli.is fjalla ég nánar um pólitíkina, stefnumálin, daglega lífið og fleira, allt eins og gengur.

Skúli Thoroddsen, Reykjanesbæ."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×