Handbolti

Kristinn: Eins og hrunin spilaborg

Elvar Geir Magnússon skrifar
„Valsmenn ætluðu sér bara sigurinn í dag en við vorum ekki ákveðnir í hvað við ætluðum að gera," sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara HK, eftir að liðið tapaði fyrir Val í dag með tíu marka mun.

Þetta var þriðji tapleikur HK í röð í deildinni. „Við erum að falla eins og spilaborg, sama hvort þú horfir á vörn eða sókn. Ef þetta heldur svona áfram eru ekki jákvæðir hlutir framundan."

„Ef við ætlum að komast aftur í þetta form sem við vorum í fyrir þessa taphrinu þá verðum við allir að fara vel yfir okkar hluti og gera það saman sem hópur. Við verðum að kryfja þetta. Himinn og jörð eru ekki að farast en þetta er langt frá því að vera fallegt," sagði Kristinn.

„Við erum ekki það HK-lið sem við viljum að fólk þekki og fólk var byrjað að tala um. Það vantar allan neista og gleði í þetta hjá okkur. Ef það er ekki til staðar skiptir engu máli með hvaða aðferð við spilum. Þetta er eins og hrunin spilaborg."

„Við verðum að finna einhverjar leiðir og skoða vel það sem við vorum að gera þegar við vorum að vinna og hvað við erum að gera núna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×