Erlent

Mannskaði af völdum Ófelíu á Írlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ofsaveðri er spáð um allt Írland og hluta Skotlands, Englands og Wales í dag.
Ofsaveðri er spáð um allt Írland og hluta Skotlands, Englands og Wales í dag. Vísir/AFP
Kona á þrítugsaldri lést þegar tré féll á bíl hennar í veðurofsanum af völdum leifa fellibyljarins Ófelíu á suðausturhluta Írlands í dag. Á annað hundrað þúsund íbúðarhúsa eru án rafmagns og herinn hefur verið kvaddur út til neyðaraðstoðar.

Önnur kona á sextugsaldri slasaðist þegar tréð féll á bílinn sem hún og konan sem lést voru í. Írar höfðu verið varaðir við því að halda sig innandyra og ferðast ekki nema brýn nauðsyn kræfi.

Írska veðurstofan varaði við lífshættulegum vindstyrk stormsins. Vindhraðinn hefur náð um 49 m/s í hviðum undan suðurströnd Írlands. Einnig er varað við hvassviðri í hlutum Skotlands, og vestan- og norðanverðu Englandi og Wales.

Stormurinn er á mikilli ferð og var því spáð að hann gengi því tiltölulega hratt yfir Írland og Bretlandseyjar.

Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að það gæti tekið nokkra daga að koma rafmagni aftur á alls staðar.

Fátítt að fellibylur komist svo norðar- og austarlega

Ófelía er sögð versti stormur sem hefur skollið á Írlandi í hálfa öld. Fátítt er að fellibyljir af styrk Ófelíu komist eins austarlega í Atlantshaf. Þegar mest lét var Ófelía skilgreind sem þriðja stigs fellibylur.

Í frétt Washington Post kemur fram að sérlega óvanalega hlýr sjór og hægir vindar í efri lögum lofthjúpsins hafi gert fellibylnum kleift að ná slíkum styrk svo norðarlega og austarlega í Atlantshafi.

Ófelía er jafnframt sjötti meiriháttar fellibylurinn sem myndast yfir Atlantshafi á þessu ári. Það jafnar fyrri met áranna 1933, 1961, 1964 og 2004 yfir fjölda felllibylja.


Tengdar fréttir

Flugi til Cork aflýst vegna Ófelíu

Flugi Wow Air til Cork á Írlandi á morgun hefur verið aflýst sökum fellibylsins Ófelíu. Ekki er búist við því að veðrið hafi áhrif á áætlunarflug til og frá Dublin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×