Skoðun

Nýjar og skapandi áherslur í heilsugæslu

Óttarr Proppé skrifar
Öflug heilsugæsluþjónusta er máttarstólpi góðrar heilbrigðisþjónustu og það er áríðandi að halda áfram að styrkja heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.

Í starfi mínu sem heilbrigðisráðherra hef ég lagt áherslu á að efla heilsugæsluna meðal annars með því að halda áfram að fjölga nýjum faghópum heilbrigðisstétta í framlínu þjónustunnar. Það hefur gengið mjög vel að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu um land allt. Næsti áfangi er að bæta sálfræðiþjónustu við fullorðna og þar verður bætt verulega í á næstu misserum samkvæmt geðheilbrigðisáætlun og fjármálaáætlun.

Til að bæta enn frekar þjónustu heilsugæslunnar liggur fyrir í fjármálaáætlun að fjölga næringarfræðingum og sjúkraþjálfurum til þess að mæta þörfum einstaklinga t.d. vegna lífsstílsvanda eða stoðkerfisvanda. Fyrsti áfanginn hér er þróunarverkefni um þjónustu næringarfræðinga á nokkrum heilsugæslustöðvum.

Enn einn liður til að bæta upplýsingar og aðgengi að þjónustu heilsugæslunnar er ný gagnvirk heimasíða www.heilsuvera.is með upplýsingum um ýmis heilbrigðismál og ráðgjöf um þjónustuna sem í boði er. Síðan er  síkvik og í stöðugri þróun og mun bæta verulega upplýsingaflæði til einstaklinga og ráðgjöf um kerfið sem mikið hefur verið kallað eftir undanfarið.

Heilsugæslustöðvar hérlendis voru fyrst settar á um miðjan níunda áratuginn og fylgdu alþjóðlegri þróun um aukna áherslu á forvarnir, heilsugæslu og eflingu lýðheilsu. Ég hef sem heilbrigðisráðherra lagt áherslu á að fylgja þessari þróun eftir með enn þá meiri áherslu á heildræna nálgun, þjónustu sem veitt er af þverfaglegu teymi, með því að nýta mun betur rafræna upplýsingamiðlun og margs konar möguleika fjarheilbrigðisþjónustu.

Með aukinni áherslu á rafræn samskipti og nýtingu tækni til meðferðar og upplýsingamiðlunar má til dæmis bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í gegnum samskipti á vefnum og ráðgjöf til einstaklinga í heimahúsi. Mörg verkefni á þessu sviði eru nú þegar hluti af heilbrigðisþjónustunni og í nýrri fjármálaáætlun eru áform um enn frekari þróun á þessu sviði sem bætir gæði þjónustunnar og eflir möguleika einstaklinganna til heilsueflingar og bættra lífsgæða.

Höfundur er heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×