Erlent

Barðir, stungnir og hengdir upp í loft

Bjarki Ármannsson skrifar
Margvísleg sönnunargögn um pyntingar, skyndiaftökur og aðra stríðsglæpi koma fram í nýrri og ítarlegri samantekt Amnesty International um ástandið í Austur-Úkraínu. Af þeim 33 fyrrverandi föngum sem Amnesty tók viðtal við lýstu 32 grófum barsmíðum og öðrum alvarlegum misþyrmingum, sem bæði aðskilnaðarsinnar og hópar vilhallir úkraínskum stjórnvöldum beittu.

„Rannsóknir okkar mitt í ólgandi stríðsátökum í Austur-Úkraínu sýna að pyndingar á föngum eru jafn algengar og þær eru átakanlegar,“ segir John Dalhuisen, framkvæmdastjóri Evrópu- og Mið-Asíudeildar Amnesty International.

Fangarnir fyrrverandi lýstu því meðal annars við gerð samantektarinnar hvernig þeir voru barðir allt þar til beinbrot hlutust af, stungnir, bundnir og hengdir upp í loft. Einnig hafi þeim verið gefið rafstuð, þeir sviptir svefni og svo dögum skiptir, þeim hótað lífláti og neitað um læknisaðstoð.

Í tilkynningu frá Amnesty segir að samtökin hafi reynt að ná tali af úkraínskum stjórnvöldum vegna þessa en engin viðbrögð fengið enn. Amnesty hefur jafnframt sent áskorun til Sameinuðu þjóðanna þess efnis að sendisveit skoði án tafar allar varðhaldsstöðvar þar sem föngum er haldið í tengslum við átökin.

„Aðskilnaðarsinnar og öfl hliðholl stjórnvöldum í Úkraínu verða að binda enda á þessa glæpi og tryggja að allir sem berjast undir þeirra merkjum séu meðvitaðir um að beiting pyndinga og illrar meðferðar á föngum á stríðstímum hefur afleiðingar samkvæmt alþjóðalögum,“ segir Dalhuisen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×