Erlent

Bandaríkin undirbúa sig fyrir það versta og Evrópa vonast til að það sé yfirstaðið

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá blaðamannafundinum í gærkvöldi.
Frá blaðamannafundinum í gærkvöldi. AP/Patrick Semansky

Yfirvöld Bandaríkjanna vöruðu við því í gær að næstu vikur yrðu erfiðar og að fjölmargir muni deyja vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar. Á Ítalíu og Spáni, þeim tveimur ríkjum Evrópu sem hafa orðið hvar verst úti, vonast embættismenn til þess að hið versta sé yfirstaðið.

Á Ítalíu vara sérfræðingar þó við því að neyðarástandið sé alls ekki liðið, þar sem fjöldi nýrra smita virðist hafa náð hámarki. Þeim hefur ekki tekið að fækka á milli daga.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagðist í gær búast við því að margir muni deyja á næstu vikum. Á sama tíma sagðist hann vilja opna landið á nýjan leik og endurræsa efnahag þess.

„Þetta land var ekki þróað til að vera lokað,“ sagði Trump. „Lækningin getur ekki verið verri en sjúkdómurinn.“

Á sama blaðamannafundi sagði Anthoni Fauci, einn helsti sóttvarnarsérfræðingur Bandaríkjanna, að aðgerðir til að draga úr fjölgun smita væri að bera árangur. Hann hvatti Bandaríkjamenn til að sýna þolinmæði og fylgja tilmælum.

Trump greip þó fram í og sagði: „Aðgerðirnar virka. En aftur, við ætlum ekki að að rústa landinu okkar.“

Hvergi hafa fleiri smitast af nýju kórónuveirunni svo vitað sé en í Bandaríkjunum. Þar er búið að staðfesta rúmlega 312 þúsund smit og rúmlega 8.500 hafa dáið, þegar þetta er skrifað. Tæplega 15 þúsund hafa jafnað sig af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur.

Trump ræddi við forsvarsmenn stærstu íþrótta Bandaríkjanna í gær og sagðist hann vilja koma aðdáendum á vellina eins fljótt og auðið er.

„Ég vil aðdáendur aftur á vellina,“ sagði Trump svo á blaðamannafundinum í gær. „Í held að það sé... hvenær sem við erum tilbúin. Eins fljótt og við getum, augljóslega. Og aðdáendurnir vilja snúa aftur, líka. Þeir vilja horfa á körfubolta og hafnabolta og fótbolta og hokkí. Þeir vilja sjá íþróttirnar þeirra. Þeir vilja fara út á golfvellina og anda að sér góða, hreina, fallega ferska loftinu,“ sagði Trump.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×