Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups treystir um 96% Íslendinga almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi til að takast á við COVID-19 sjúkdóminn. Traustið hefur aukist töluvert frá því um miðjan mars þegar könnunin fór af stað, en tekin voru þrjú úrtök á tímabilinu 16. mars til 2. apríl til að skoða breytingar á skoðunum Íslendinga á málefnum sem varða kórónuveiruna á tímabilinu.
Af þessum 96 prósentum sögðust 51 prósent treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum fullkomlega, 34 prósent treysta þeim mjög vel og ellefu prósent frekar vel í úrtaki sem tekið var 27. mars -2. apríl. Þegar könnunin fór af stað treystu 38 prósent almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum fullkomlega, 36 prósent mjög vel og 16 prósent frekar vel. Traust jókst því til muna en við bættust þrettán prósent sem treystu heilbrigðisyfirvöldum fullkomlega.

Þá var það einnig kannað hve vel þjóðin treysti íslensku ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19. Niðurstöður úrtaks sem tekið var 20.-26. mars voru að 15 prósent treystu ríkisstjórninni fullkomlega, 30 prósent mjög vel, 30 prósent frekar vel og 25 prósent treystu ríkisstjórninni hvorki vel né illa, frekar illa eða mjög illa. Traust til ríkisstjórnarinnar breyttist örlítið í úrtaki sem tekið var 27. Mars til 2. Apríl, en þá treystu aðeins 11 prósent ríkisstjórninni fullkomlega, 32 prósent mjög vel, 32 prósent frekar vel og 25 prósent hvorki vel né illa, frekar illa eða mjög illa.

18 prósent í sjálfskipaðri sóttkví
Aðeins 11,9 prósent telja sig hafa verið með einkenni sem passa við COVID-19 en sú skoðun jókst á tveimur vikum, en þá töldu aðeins 5,9 prósent sig hafa fundið fyrir einkennum COVID-19. Töluvert fleiri töldu einhverja nákomna sér vera með eða hafa verið með einkenni sem passa við COVID-19 en það voru um 16,2 prósent. Hlutfall þeirra jókst einnig á vikunum tveimur en aðeins 7 prósent töldu einhvern nákominn sér hafa verið með einkenni sjúkdómsins um miðjan mars.

Þá hefur kvíði vegna faraldursins meðal landsmanna aukist frá því um miðjan mars en nú finna um 36,8 prósent landsmanna fyrir frekar miklum, mjög miklum eða gífurlega miklum kvíða. Þetta hlutfall jókst um 9,5 prósent frá því um miðjan mars. Í kring um 30 prósent þjóðarinnar finnur fyrir hvorki miklum né litlum kvíða vegna ástandsins.
Einstaklingum í sjálfskipaðri sóttkví hefur einnig fjölgað en á tímabilinu 13.-16. mars voru aðeins 4 prósent svarenda í sjálfskipaðri sóttkví. Dagana 20.-26. mars voru 13 prósent svarenda í sjálfskipaðri sóttkví og nú eru um 18 prósent í sjálfskipaðri sóttkví.