Körfubolti

Ölli einn sá erfiðasti sem Jón mætti - Hefði getað farið lengst okkar allra

Sindri Sverrisson skrifar
Vinirnir Logi Gunnarsson (t.v) og Örlygur Aron Sturluson (t.h.) eftir að Njarðvík varð Íslandsmeistari árið 1998. Jón Arnór Stefánsson valdi þá sem tvo af allra erfiðustu mótherjum sínum.
Vinirnir Logi Gunnarsson (t.v) og Örlygur Aron Sturluson (t.h.) eftir að Njarðvík varð Íslandsmeistari árið 1998. Jón Arnór Stefánsson valdi þá sem tvo af allra erfiðustu mótherjum sínum. Mynd/Halldór Rósmundur

Jón Arnór Stefánsson segir að mögulega hefði Örlygur Aron Sturluson getað náð lengst allra íslenskra körfuboltamanna, hefði honum enst aldur til.

Jón lýsti því í Sportinu í kvöld í liðinni viku hverjir hefðu verið hans erfiðustu mótherjar á ferlinum. Jón nefndi Hlyn Bæringsson og Brenton Birmingham, sem og Loga Gunnarsson sem hann sagðist hafa kviðið því að mæta þegar þeir voru yngri. Liðsfélagi Loga í Njarðvík, Ölli, var Jóni ekki síður erfiður þegar þeir mættust í yngri flokkum:

„Þetta er hinn drengurinn sem ég kveið svolítið fyrir því að spila á móti. Ég dekkaði hann og hann dekkaði mig, og þarna var ég að spila upp fyrir mig. Hann poppaði strax upp í hugann núna, því mig langaði að fara alveg aftur í minniboltann, þegar ég var að byrja í þessu. Hann var svo mörgum hæðum fyrir ofan okkur hina, og virtist eiga svo auðvelt með þetta,“ sagði Jón við Rikka G.

„Hann var svo ofboðslega yfirvegaður á vellinum, ofboðslega þroskaður bæði líkamlega og hvernig hann spilaði. Ölli var rosalega erfiður í yngri flokkunum, og það var synd að fá ekki að keppa á móti honum í seinni tíð. Hann varð að vera á þessum lista,“ sagði jón, en Ölli lést í byrjun ársins 2000. Jón er ekki í vafa um að hann hefði getað náð langt í körfuboltanum:

„Hann hefði farið mjög langt. Hann hefði verið að spila í toppdeild í Evrópu hefðu spilin fallið þannig, og hefði mögulega getað farið lengst af okkur öllum. Ég held að það séu flestir sammála mér í því.“

Klippa: Sportið í kvöld - Ölli einn erfiðasti mótherji Jóns

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×