Innlent

Aðgerðir hertar á norðanverðum Vestfjörðum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá Suðureyri.
Frá Suðureyri. Vísir/ Helga Konráðsdóttir

Leikskólum og grunnskólum á Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík verður lokað frá og með morgundeginum, 6. apríl, vegna aðstæðna á norðanverðum Vestfjörðum í ljósi COVID-19 sjúkdómsins. Þá hefur samkomubann verið hert og miðað er við að aðeins fimm megi hittast, nema um fjölskyldur sem búa á sama heimili sé að ræða.

Þetta kemur fram á Facebook síðu almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra en ákvörðunin var tekin af aðgerðarstjórn almannavarna á Vestfjörðum í samráði við sóttvarnarlækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Þá hafa reglur um fjölda viðskiptavina í stærri verslunum, það er stærri en 150 fermetrar, verið hertar og mega að hámarki vera 30 inni á hverjum tíma.

Fólk er einnig hvatt til að halda sig heima, halda samskiptafjarlægð og takmarka ferðir sínar. Fimm ný smit komu upp síðasta sólarhringinn sem öll tengjast norðanverðum Vestfjörðum og stendur nú smitrakning yfir og niðurstaðna beðið.


Tengdar fréttir

Grunur um að fjórði íbúinn á Bergi sé smitaður

Á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík eru 3 veikir af Covid -19 og einn í viðbót er með einkenni og kominn í einangrun. Sjö aðrir íbúar eru í sóttkví. Stór hluti starfsmanna er í sóttkví og í þeim hópi er einnig farið að bera á einkennum sjúkdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×