Erlent

Yfirmaður bandaríska sjóhersins segir af sér

Andri Eysteinsson skrifar
Thomas Modly hefur nú sagt af sér embætti
Thomas Modly hefur nú sagt af sér embætti Getty/Chip Somodevilla

Starfandi yfirmaður bandaríska sjóhersins, Thomas Modly, hefur sent frá sér uppsagnarbréf, degi eftir að hljóðupptökur komust í dreifingu. Á upptökunum mátti heyra Modly fara ófögrum orðum um fyrrverandi skipstjóra flugmóðurskipsins USS Theodore Roosevelt. Kallaði Modly skipstjórann, Brett Crozier, heimskan fyrir framan áhöfn skipsins. CNN greinir frá.

Síðasta mánudag ávarpaði Modly áhöfnina þar sem hann sagði Crozier annaðhvort „of barnalegan eða of heimskan“ til þess að vera yfirmaður skipsins. Crozier var í vikunni lækkaður í tign vegna leka bréfs sem hann sendi til yfirmanna sinna og annarra vegna fjölda Covid-19 smita um borð í flugmóðurskipinu.

Sjá einnig: Ráku skipstjóra flugmóðurskips sem kallaði eftir hjálp vegna faraldursins

Modly hefur beðist afsökunar á ummælum sínum. „Brett Crozier skipstjóri er hvorki barnalegur né heimskur. Crozier er bæði gáfaður og metnaðarfullur því tel ég að hann hafi sent póstinn með það að markmiði að honum yrði lekið,“ sagði í yfirlýsingu Modly.

Talið er líklegt að James McPherson sem starfað hefur innan raða bandaríska hersins taki við embættinu af Modly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×