Innlent

„Það finna allir mjög þétt til ábyrgðar“

Sylvía Hall skrifar
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir samninganefndirnar vinna vel saman og þær hafi átt gott samtal í dag.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir samninganefndirnar vinna vel saman og þær hafi átt gott samtal í dag. Vísir/Sigurjón

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segist vera ánægður með fund dagsins hjá samninganefndum ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Fundi lauk klukkan 18 í kvöld og hefur verið boðað til næsta fundar klukkan 13 á morgun.

Í samtali við Vísi segir Aðalsteinn samninganefndirnar hafa mætt vel undirbúnar í dag og þær hafi átt gott samtal. Þá fengu nefndirnar heimavinnu líkt og í gær fyrir fund morgundagsins.

„Það finna allir mjög þétt til ábyrgðar og það vantar ekkert upp á.“

Öllum varúðarreglum er fylgt við samningaborðið og gaf sóttvarnalæknir samninganefndum leyfi til þess að funda í persónu í vikunni. Því er takmarkaður fjöldi í samninganefndunum til þess að tryggja það að tveggja metra reglan sé virt sem og fjöldatakmarkanir.

Stefnt er á að funda yfir páskana og hafa sérfræðingar verið kallaðir til sem hafa hjálpað til við samningaviðræðurnar. Þá sé gott hljóð í hópnum og hann svekki sig ekki mikið á því að verja páskunum í samningaviðræður en hjúkrunarfræðingar hafa nú verið samningslausir í tæpt ár.

„Páskunum er vel varið í þetta. Við finnum til sömu ábyrgðar og aðrir í samfélaginu,“ segir Aðalsteinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×