Erlent

Fjöldagrafir nýttar í New York

Andri Eysteinsson skrifar
Frá New York borg sem hefur nú orðið illa úti vegna kórónuveirunnar.
Frá New York borg sem hefur nú orðið illa úti vegna kórónuveirunnar. Getty/Bloomberg

Á Hart-eyju utan við Long Island í New York borg hefur lengi verið að finna fjöldagrafir sem borgaryfirvöld nota fyrir látna sem ekki eiga neina fjölskyldu og fólk sem ekki getur greitt fyrir eigin útför. BBC greinir frá því að undanfarnar vikur hafi starfsemi aukist mjög á svæðinu og er talið að kórónuveiran leiki þar stórt hlutverk.

Sést hefur til verkamanna, íklæddum hlífðarfatnaði grafa grafir og hlaða líkkistum þar ofan í. Iðulega er unnið á Hart-eyju einn dag í viku en nú eru verkamenn þar að störfum fimm daga í viku. Í gegnum tíðina hafa fangar úr Rikers Island fangelsinu séð um gröftinn en vegna mikils álags hafa verktakar tekið verkefnið að sér.

New York er nú það svæði í heiminum sem verst hefur farið út úr faraldri kórónuveirunnar en tæplega 160 þúsund tilfelli veirunnar hafa greinst, um það bil 7000 hafa látist.. Það sjálfstæða ríki sem hefur flest greind tilfelli utan Bandaríkjanna er Spánn en þar hafa 153.000 tilfelli greinst.

Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, ýjaði að því á blaðamannafundi í vikunni að mögulega þyrfti að grípa til tímabundinna greftrunarúrræða vegna dauðsfalla af völdum kórónuveirunnar. Nefndi ríkisstjórinn þar Hart-eyju sérstaklega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×