Innlent

Hjúkrunar­fræðingar náðu ekki öllum kröfum sínum í gegn

Sylvía Hall og Jóhann K. Jóhannsson skrifa

Nýr kjarasamningur Félags hjúkrunarfræðinga við ríkið var undirritaður nú síðdegis. Formaður félags hjúkrunarfræðingana segir samninginn fela í sér tækifæri til framtíðar.

Kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið hefur verið laus frá því í mars í fyrra. En deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar síðastliðnum. 

Sjá einnig: Kjarasamningur hjúkrunarfræðinga í höfn

Það var ekki bjart yfir því að samningar tækjust sem samninganefndirnar hafa setið á löngum fundum síðustu fimm daga sem varð til þess að nýr kjarasamningur var undirritaður rétt fyrir klukkan fimm í dag.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, undirritar samninginn.Vísir/Sigurjón

Náðuð þið öllum ykkar kröfum í gegn?

„Nei, það er nú aldrei þannig í samningum, enda kallast þetta samningur. Þá þurfa báðir aðilar að hafa áhrif á en við allavega skrifuðum undir og við hefðum ekki skrifað undir nema að því við treystum okkur til að kynna hann,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Samningurinn nær til rúmlega þrjú þúsund hjúkrunarfræðinga og byggir á á Lífskjarasamningnum. Stytting vinnuvikunnar vegur þar þungt og þá verður vaktakerfi dagvinnu- og vaktavinnufólks endurskoðað. Formaður samninganefndar ríkisins segir að fundir síðustu daga hafa skilað góðri niðurstöðu.

„Eins og við höfðum orð á þetta er ákveðið upphaf af upprisunni eigum við ekki að horfa á það þannig,“ segir Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins.

Þurftuð þið að gefa mikið eftir?

„Þetta er bara mjög ásættanlegur samningur fyrir báða aðila,“ segir Sverrir.

Stefnt er að því að kynna samninginn fyrir félagsmönnum strax eftir páska.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×