Erlent

Fjöldi smita fór yfir hálfa milljón sama dag og yfir 2000 létust

Andri Eysteinsson skrifar

Yfir 2000 manns létust af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum í gær, hvergi hefur slíkur fjöldi dauðsfalla sést á einum degi frá því að faraldurinn hóf að breiða úr sér. BBC greinir frá.

Samkvæmt tölfræði frá Johns Hopkins háskólanum í Baltimore í Maryland létust 2108 í Bandaríkjunum á síðasta sólarhring. Bandaríkin eru það land þar sem flest tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst en nú hafa yfir 500.000 smit verið staðfest.

Alls hafa 18.777 manns látist í Bandaríkjunum vegna faraldursins og er það einungis á Ítalíu þar sem fleiri hafa látist en þó munar ekki miklu. 18.849 Ítalir hafa fallið af hendi veirunnar.

Ráðamenn og sérfræðingar vestan hafs telja þó að það sé að hægjast á faraldrinum. Hægjast væri á vextinum þó að toppnum væri ekki náð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann búist við því að færri láti lífið í Bandaríkjunum en spár hafa gert ráð fyrir. Gert var ráð fyrir 100.000 mögulegum dauðsföllum vegna veirunnar. „Við sjáum vísbendingar um það að hörðu aðgerðirnar okkar séu að skila árangri,“ sagði forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×