Innlent

Sýni bakvarðasveitarinnar á Bergi neikvæð

Andri Eysteinsson skrifar

Rannsókn á sýnum teknum úr meðlimum bakvarðasveitarinnar sem starfað hefur á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík er lokið. 

Öll sýnin reyndust neikvæð fyrir kórónuveirusmiti. Þetta staðfestir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í samtali við fréttastofu.

„Sýni úr þeim voru greind í nótt og þau eru öll neikvæð þannig að starfsemin er fallin í ljúfa löð ef svo má segja,“ sagði Gylfi.

Starfsfólk bakvarðasveitarinnar er því ekki lengur í sóttkví.

Sveitin þurfti að fara í sóttkví og voru vistaðir á farsóttarheimilinu á Ísafirði eftir að ein úr sveitinni var handtekin grunuð um skjalafals og þjófnað. Sýni var tekið úr konunni og samkvæmt upplýsingum fréttastofu reyndist það sýni einnig neikvætt.

„Hún var skráð sem sjúkraliði hjá okkur og það er fjölbreytt störf sem að gera inni á hjúkrunarheimilum en þau voru eilítið snúnari í þessu tilviki. Þarna voru inni Covid-sjúkir einstaklingar meðal annars, sagði Gylfi um hlutverk konunnar á meðan hún starfaði á Bergi.

„Hún hafði framvísað ýmsum pappírum. Stutta svarið er að við gátum ekki treyst því sem hún hafði sagt og því fór sem fór,“ sagði Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×