Demókratinn og bandaríski forsetaframbjóðandinn Tulsi Gabbard hefur stefnt Hillary Rodham Clinton, fyrrverandi forsetafrú og utanríkisráðherra, fyrir meiðyrði. Krefst Gabbard þess að Clinton verði dæmd til greiðslu 50 milljón dala í miskabætur, um 6,3 milljarða króna.
Málið snýst um orð Clinton í hlaðvarpsþætti í október þar sem hún kallaði Gabbard „rússneskan útsendara“ (e. Russian asset).
Í stefnunni segir að Clinton hafi logið til um andstæðing sinn. „Hún gerði það á opinberum vettvangi, ótvírætt, og með því augljósa markmiði að skaða. Lygar Clinton hafa skaðað Tulsi – og sömuleiðis hefur bandarískt lýðræði orðið fyrir staða.“
Orð Clinton vöktu mikla athygli í haust þar sem ýmsir komu Gabbard til varnar – meðal annars forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Hin 38 ára Gabbard hefur setið á þingi fyrir Demókrataflokkinn frá árinu 2013. Hún er þingkona Hawaii og fyrsti hindúinn til að ná kjöri til Bandaríkjaþings.