„Eg eri akkurát komin, og eg eri Korona. Ein virus, ja, eitt trøll, ið helst vil smitta øll.“
Þannig hefst söngur færeyskrar óperusöngkonu í hlutverki kórónuveirunnar í myndbandi sem framleitt var til þess að fræða færeyskan almenning um mikilvægi handþvottar og spritts í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar. Myndbandið er framleitt af stjórnvöldum Færeyjum og birtist á Facebook-síðu sem tileinkuð er upplýsingum um veiruna og útbreiðslu hennar í Færeyjum. Þegar þetta er skrifað hafa 184 greinst með veiruna í Færeyjum, en engin dauðsföll eru skráð þar vegna veirunnar.
Í myndbandinu bregða kona og maður sér í hlutverk Koronu og Koronusar, sjálfrar kórónuveirunnar, og syngja um þrá sína til þess að smita sem flesta, og þá allra helst gamalt og veikt fólk. Þau leita þá sérstaklega að fólki sem ekki þvær hendur sínar, en eins og ítrekað hefur verið bent á er gott hreinlæti og handþvottur ein besta leiðin til þess að koma í veg fyrir kórónuveirusmit.
„Vit leita eftir fólkum, sum ikki vaska hendur,“ syngja Korona og Koronus í myndbandinu. Til allrar óhamingju fyrir þau virðast Færeyingar, í það minnsta ef marka má myndbandið, duglegir að halda sig heima, hósta ekki út í loftið, þvo hendur vel og spritta, og „eru altíð hyggin, so ongin fær korona,“ eins og segir í laginu.
Myndbandið, hvers skilaboð eiga ekki bara vel við í Færeyjum, má sjá hér að neðan.