Innlent

Rok, rigning, él og gular við­varanir

Atli Ísleifsson skrifar
Það snýst í suðvestan 15-23 m/s síðdegis með éljum og kólnandi veðri, en rofar til um landið austanvert.
Það snýst í suðvestan 15-23 m/s síðdegis með éljum og kólnandi veðri, en rofar til um landið austanvert. veðurstofan

Landsmenn mega von á bæði mikilli rigningu og úrkomu víðs vegar um land í dag. Spáð er sunnan 15 til 23 metrum á sekúndu með talsverðri rigningu fram eftir degi, en úrkomuminna norðaustanlands. Mjög hlýtt er á á landinu og er búist við hita allt að 13 stigum norðaustanlands.

Gular viðvaranir taka gildi víðs vegar um land í kvöld og fram á annað kvöld – Á Vestfjörðum, Breiðafirði, Faxaflóa, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á hálendinu.

„Það snýst í suðvestan 15-23 m/s síðdegis með éljum og kólnandi veðri, en rofar til um landið austanvert. Á morgun verður svo áframhaldandi suðvestanátt og éljagangur um landið sunnan- og vestanvert, en bjartviðri fyrir austan. Frost víða 0 til 5 stig.

Það bætir í vind norðvestan- og vestanlands í kvöld, þá ganga gular hríðarviðvaranir í gildi í tilheyrandi landshlutum og gilda þær fram eftir degi á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Suðvestan og vestan 15-23 m/s, en 18-25 NV-til framan af degi. Éljagangur, en yfirleitt léttskýjað austantil á landinu. Frost 0 til 5 stig.

Á föstudag: Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og él, en þurrt austanlands. Vægt frost. Vaxandi austlæg átt sunnantil um kvöldið með snjókomu og hægt hlýnandi veðri.

Á laugardag: Hvöss austlæg átt, slydda eða rigning með suðurströndinni en annars snjókoma. Hiti 0 til 4 stig syðst, en annars vægt frost.

Á sunnudag: Suðlæg eða breytileg átt með snjókomu eða éljum víða. Kólnandi veður.

Á mánudag og þriðjudag: Líkur á norðlægri átt með snjókomu norðanlands, en bjartviðri syðra. Kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×