Erlent

Trump gefur í skyn að brottrekstur sóttvarnasérfræðings sé yfirvofandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump (t.v.) og Fauci.
Trump (t.v.) og Fauci. Vísir/EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti deildi í gær tísti á Twitter-síðu sinni þar sem kallað var eftir brottrekstri Anthonys Fauci, forstöðumanns Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna.

Í tístinu sem Trump deildi var Fauci gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla um viðbrögð Bandaríkjastjórnar við faraldri kórónuveirunnar sem nú geisar víðs vegar um heiminn. Hann sagði að ef fyrr hefði verið gripið til aðgerða hefði mátt bjarga lífi margra Bandaríkjamanna.

Sjá einnig: Trump-stjórnin sögð hafa vanrækt undirbúning um mánaðaskeið

Um er að ræða tíst frá Repúblikananum DeAnna Lorraine. Hún bauð sig fram í síðustu kosningum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings en hafði ekki erindi sem erfiði. Í tísti sínu segir hún skjóta skökku við að Fauci segi nú að Trump hefði átt að hlusta á sérfræðinga, þar sem Fauci hafi sjálfur í lok febrúar sagt að Bandaríkjamenn hefðu ekkert að óttast.

Þá sagði hún kominn tíma til að reka Fauci, sem gegnt hefur embætti forstöðumanns Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna síðan 1984 og þannig farið fyrir viðbragðsaðgerðum við HIV-faraldrinum, Ebólu í Bandaríkjunum og nú Covid-19. Í raun gegnir hann svipuðu hlutverki í faraldrinum vestan hafs og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir gerir hér heima.

Með færslunni skrifaði Trump sjálfur að „falsfréttamiðlar,“ sem honum er tíðrætt um, gætu ekki gert sér trúverðugan mat úr ummælum Fauci. Það væri vel skrásett að forsetinn hefði bannað ferðir fólks frá Kína til Bandaríkjanna áður en háværar kröfur um aðgerðir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar fóru að heyrast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×