Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur sent Svandísi Svavarsdóttur minnisblað sem felur í sér tillögur um hvernig aflétta eigi aðgerðum sem gripið hefur verið til til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.
Þórólfur greindi frá þessu á blaðamannafundi almannavarna og Landlæknisembættisins fyrir stundu. Til stendur að byrja að aflétta samkomubanni og öðrum aðgerðum eftir 4. maí næstkomandi. Á fundinum sagðist Þórólfur eiga von á að þetta hefði meðal annars áhrif á skólahald í maí. Þórólfur sagði jafnframt á fundinum að það yrði farið hægt í að aflétta aðgerðunum.
Hann segir ljóst að yfirvöld munu sæta gagnrýni fyrir að fara of hægt og jafnvel fyrir að fara of hratt hjá sumum. Hann segir enn langt í land hér á landi. Þó sé ljóst að okkur hafi gengið mjög vel í baráttunni og það megi þakka þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi.
„Faraldurinn er verulega á niðurleið hér. Það er lítið samfélagslegt smit og ég vil þakka það þeim samfélagslegu aðgerðum sem í gangi hafa verið,“ segir Þórólfur.