Innlent

Með betri árangri sem sést hefur í Evrópu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að tryggja að faraldurinn blossi ekki upp aftur.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að tryggja að faraldurinn blossi ekki upp aftur. Vísir/Egill

Sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum um hvernig aflétta eigi aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins. Vænta má þess að tillögurnar verði kynntar á morgun en sóttvarnarlæknir segir mikilvægt að aflétta aðgerðum hægt til að faraldurinn blossi ekki upp aftur.

„Við munum reyna að fara í svona öfugri röð við það hvernig þær voru settar á,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Búast má við að minnisblað sóttvarnalæknis verði rætt á ríkisstjórnarfundi á morgun og tillögurnar væntanlega kynntar í framhaldinu. Þórólfur vill lítið gefa upp um tillögur sínar fyrr en heilbrigðisráðherra hefur farið yfir þær en útilokar ekki að hægt verði að bjóða börnum upp á meiri tíma í skólum og leikskólum strax í maí.

Þeim hefur fækkað hratt síðustu daga sem greinast með kórónuveiruna en síðastliðinn sólarhring voru þeir aðeins tíu. Níu af þeim voru í sóttkví. Þá hefur þeim fjölgað hratt sem hafa náð sér eftir að hafa greinst með veiruna. Sjö eru á gjörgæsludeild Landspítalans en fjórir þeirra eru í öndunar vél. Þá eru tveir á gjörgæsludeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

„Við höfum náð mjög góðum árangri hérna með því bæla faraldurinn niður og ég held að við séum bara með betri árangri sem að sést hefur í Evrópu hvað það varðar en það þýðir líka það að við þurfum að fara mjög hægt í að aflétta þessu og við þurfum að gefa okkur nokkra mánuði í að gera það. Því að annars fáum við faraldurinn aftur og það getur skapað mjög mikið álag fyrir spítalann og samfélagið allt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Takmarkanir á stórum samkomum í allt sumar

Sóttvarnalæknir segir landsmönnum að búa sig undir áframhaldandi takmarkanir að minnsta kosti fram á haust. Andlát vegna kórónuveirunnar varð á Landspítalanum síðasta sólarhring. Átta hafa látist af völdum veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×