Yfirvöld í Bretlandi hyggjast hvorki gera breytingar á núverandi útgöngubanni né öðrum sóttvarnaraðgerðum í bráð. Þetta segir Dominic Raab utanríkisráðherra, sem er staðgengill Boris Johnson forsætisráðherra á meðan hann jafnar sig eftir kórónuveirusmiti.
„Við búumst ekki við því að gera neinar breytingar á þeim aðgerðum sem eru í gildi eins og er og við munum ekki gera það fyrr en við erum viss, eins viss og við getum orðið, að slíkar breytingar séu öruggar,“ sagði Raab á daglegum upplýsingafundi stjórnvalda.
Hann sagði núverandi aðgerðir vera að skila árangri en hápunkti faraldursins væri ekki náð. Því væri mikilvægt að allir héldu áfram að leggja sitt af mörkum til þess að sporna gegn frekari útbreiðslu.
„Höldum þessu áfram, við erum komin of langt, búin að missa of marga ástvini og búin að fórna of miklu til þess að slaka á.“
Sir Patrick Vallance, aðalvísindaráðgjafi yfirvalda, sagði það vera í skoðun hvort hvetja ætti almenning til þess að nota andlitsgrímur á almannafæri. Ef það væru sterk rök fyrir því að fólk færi að nota grímur myndu yfirvöld mæla með því. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur þó gefið það út að andlitsgrímur sambærilegar þeim sem eru notaðar á sjúkrahúsum ættu að vera geymdar fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Óttast að aflétta takmörkunum of snemma
Raab áréttaði mikilvægi þess að almenningur væri meðvitaður um að fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út. Þá væri hætta á því að faraldurinn myndi ná frekari útbreiðslu ef takmörkunum yrði aflétt of snemma.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvatti þjóðir heimsins að fara varlega í það að aflétta takmörkunum næstu vikur og mánuðir. Afleiðingarnar gætu verið alvarlegar og leitt til mun fleiri dauðsfalla en ella.
„Ég veit að einhver lönd eru nú þegar að vinna að því að aflétta útgöngubönnum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vill að sjálfsögðu losna við slíkar takmarkanir eins og allir aðrir en á sama tíma gæti það leitt til hættulegs endurriss í faraldrinum,“ sagði Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar.