Veiði

Veiði hefst í Þingvallavatni 20. apríl

Karl Lúðvíksson skrifar
Árni Kristinn með stórann urriða úr Villingavatnsárós vorið 2019
Árni Kristinn með stórann urriða úr Villingavatnsárós vorið 2019 Birt með leyfi
Þó svo að fyrstu vötnin hafi þegar opnað fyrir veiði eru ekki margir farnir að kíkja í þau og ástæðan er bara sú að mörg þeirra eru ennþá ísilögð.

Vatnaveiðin fer yfirleitt ekki af stað af neinum krafti fyrr en í maí en þó með þeirri undantekningu að þegar Þingvallavatn opnar fyrir veiðimönnum er oft margmenni við bakkann. Það eru mýmörg svæði sem gefa góða veiði fyrstu dagana og það er ekki bleikjan sem verið er að elta heldur urriðinn. Þau svæði sem eru mikið sótt eru til dæmis Ion svæðið, Kárastaðir, Svörtuklettar, Villingavatnsárós og síðan auðvitað þjóðgarðurinn en það er víðar hægt að veiða urriða í vatninu þó þessi svæði séu bara nefnd.

Þeir sem þekkja vel á þjóðgarðinn vita hvar er best að finna urriðann og það sem síðan skiptir meira máli á hvaða tíma. Besta veiðin í þjóðgarðinum er til dæmis yfirleitt seint á kvöldin, alveg upp undir myrkur en þá fer urriðinn á stjá og gengur mjög nálægt landi. Það eru nokkrir staðir sem eru veiðnari en aðrir en lykilatriðið virðist vera að vera vestan megin í þjóðgarðinum og út á töngunum sem þar eru. Það eru bara sex dagar í að veiðimenn fjölmenni við bakka vatnsins í leit að ísaldarurriðanum og ef veður er skaplegt er eiginlega hægt að fullyrða að fyrstu fréttir af 15-20 punda urriðum verða komnar hér á Veiðivísi fljótlega eftir hádegi sama dag.






×