Íslenski boltinn

Vestri og Þróttur unnu úrvalsdeildarnýliðana | Björn með tvö fyrir FH

Sindri Sverrisson skrifar
Björn Daníel Sverrisson skoraði tvö mörk fyrir FH í kvöld.
Björn Daníel Sverrisson skoraði tvö mörk fyrir FH í kvöld. vísir/daníel

Vestri og Þróttur R., sem leika í 1. deild í sumar, unnu úrvalsdeildarlið í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld.

Vestri vann 1-0 sigur á Fjölni í Egilshöll þar sem Viktor Júlíusson skoraði sigurmarkið skömmu fyrir hálfleik. Lærisveinar Bjarna Jóhannssonar eru því með 6 stig og nú jafnir Fjölni og ÍBV í 2.-4. sæti, stigi á eftir Val. Vestri og ÍBV eiga leik til góða á Val og Fjölni.

Þróttarar unnu 2-1 sigur gegn Gróttu sem líkt og Fjölnir verður nýliði í Pepsi Max-deildinni í sumar. Í sama riðli vann FH 2-1 sigur gegn Grindavík eftir að hafa lent undir þegar Alexander Veigar Þórarinsson skoraði úr víti á 51. mínútu. Björn Daníel Sverrisson svaraði því marki með tveimur mörkum á sex mínútum strax í kjölfarið.

FH er á toppi 3. riðils með 10 stig eftir fjóra leiki, fjórum stigum á undan Þór og HK sem mætast á morgun. Grótta er með 5 stig, Þróttur 3, og Grindavík 1.

Loks vann KR 3-1 sigur gen Aftureldingu í Mosfellsbæ. KR-ingar eru því jafnir Breiðabliki að stigum á toppi 1. riðils, með þrjá sigra í þremur leikjum, en Afturelding er með eitt stig.

Upplýsingar um markaskorara eru af urslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×