Innlent

Mannaflsskortur til að taka á duldum auglýsingum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fjöldi áhrifavalda auglýsti bröns á Instagram en tók ekki fram að um auglýsingu væri að ræða
Fjöldi áhrifavalda auglýsti bröns á Instagram en tók ekki fram að um auglýsingu væri að ræða
Að mati Tryggva Axelssonar, forstjóra Neytendastofu, er mannaflsskortur til að taka á duldum auglýsingum áhrifvalda á samfélagsmiðlum á borð við Instagram. „Það gefur auga leið að við erum á Neytendastofu með 15 stöðugildi þannig að það er auðvitað skortur og okkar starfsemi er svo víðtæk, það þarf aukin kraft í þessa hluti," segir Tryggvi.

Hann segir það sérstaklega vera þannig núna þegar eru að verða til fleiri vettvangar til auglýsinga með tilkomu samfélagsmiðla. „Það eru svo mörg mál og við erum stöðugt að forgangsraða. Það er ekki bara auglýsingar þarna heldur líka verðmerkingaeftirlit. Við erum að fá fleiri og fleiri eftirlitsverkefni. Þetta er mjög víðtæk starfsemi," segir Tryggvi. „Við erum á leiðinni að leggja meiri áherslu á netverlsun og það krefst meiri sérhæfingu og tækjabúnaðar."

Greint var frá því í gær að samtökin Public Citizen í Bandaríkjunum hefðu sent yfir 90 erindi til svokallaðra áhrifavalda, Hollywood stjarna, íþróttamanna og módela, til að ítreka að þeir ættu að taka það fram í upphafi hvers innleggs á Instagram ef verið væri að auglýsa vörur.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við gáfum út leiðbeiningar árið 2015 og sendum á fjölmiðla og einhverja bloggara. En við höfum ekki farið af stað aftur með svona kynningarátak," segir Daði Ólafsson, lögfræðingur hjá Neytendastofu, aðspurður hvort Neytendastofa hefði gert eitthvað svipað. Hann segir það að hafa gefið út leiðbeiningar hafa gefið góða raun.

Hann segir að Neytendastofa sé nú með eitt mál í gangi þar sem var augljóst að tilefni væri til að skoða, en um var að ræða fyrirtæki sem var að auglýsa á Instagram. 

„Ég get lítið tjáð mig um það en við erum að skoða það út frá því að innleggin hafi ekki verið nægilega vel merkt sem auglýsing, það er forsendan. Þau úrræði sem við höfum er að við getum bannað háttsemi sem er óréttmætir viðskiptahættir. Við getum gefið fyrirmæli um breytingar og við getum líka veitt heimild fyrir notkun ákveðna tiltekinna viðskiptahátta en með skilyrði. Svo eru tvö úrræði í viðbót, sektir og dagsektir."

„Þetta er allt spurning um áherslur og hvar við teljum að okkar aðgerðir skili sem mestum árangri, við erum að gera margt annað, en við erum alla veganna með eitt mál í gangi sem athyglisvert verður að sjá hvernig gengur," segir Daði.

Hann segir að Neytendastofa hafi fengið mikið af fyrirspurnum frá milliliðum sem hafa verið áhugasamir um hvernig eigi að standa að þessu.

„Þó við sjáum að framkvæmdin sé ekki alveg fullkomin þá virðist þetta vera að mjakast í rétta átt miðað við hvernig ástandið var áður," segir Daði.


Auglýsingar oft skýrari á bloggum

Athygli var vakin á því í byrjun þessa mánaðar að veitingastaðurinn Þrastalundur væri að bjóða mörgum áhrifavöldum á samfélagsmiðlum til sín í bröns. Þegar áhrifavaldar auglýstu svo staðinn í bloggfærslum og á myndum á Instagram var það ekki alltaf tekið skýrt fram. Nokkrar bloggfærslur voru vel merktar en hið sama var ekki að segja um margar Instagram myndir.

Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir eða Heidi Ola eins og hún er þekkt, er ein þeirra sem var boðið og bloggaði um staðinn í færslu og setti mynd á Instagram. „Það stendur alveg í blogginu mínu að mér var boðið að koma. Ég skrifa ekki alltaf undir myndirnar á Instagram ég segi bara hvar ég er. Ég held að við megum alveg bara pósta myndum, eins og við viljum, um hvað við erum að gera, það eru hvergi til reglur um það." Hún bætir við að hún taki það fram á Snapchat ef henni var boðið einhvert eða gefið eitthvað.


Tengdar fréttir

Vilja borga íslenskum Instagram-stjörnum

Sprotafyrirtækið Takumi tengir saman fyrirtæki og íslenska áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Gengið hefur vel í Bretlandi og hefst íslensk herferð fyrir jólin. Hlutafé fyrirtækisins var aukið nýlega og stefnir það næst til Bandaríkjanna

Flokka Íslendinga eftir áhrifum þeirra

Höfundur forrits segir það hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum og að fyrirtækið sé nú þegar komið með milljón manns á skrá.

Elín fengið sig fullsadda af óhreinskilni auglýsenda

Bloggarinn og förðunarfræðingurinn Elín Erna Stefánsdóttir birti nýverið færslu á Twitter þar sem hún fjallar um duldar auglýsingar sem bloggarar og samfélagsmiðlastjörnur dæla út til fylgjenda sinna í formi meðmæla. Sjálf hefur hún tileinkað sér að vera hreinskilin í allri sinni umfjöllun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×