Lögmenn konu á þrítugsaldri sem missti fóstur þegar hún var skotin í magann færðu rök fyrir því fyrir dómi í Alabama í Bandaríkjunum í gær að ákæra á hendur henni vegna manndráps væri „gölluð og brengluð“. Þeir telja að ákæran byggi ekki á lögum.
Ákærudómstóll gaf út ákæru á hendur Marshae Jones, 28 ára gamallar konu í síðustu viku. Hún var talin hafa borið ábyrgð á því að hafa misst fóstur með því að hafa valdið rifrildi sem endaði með því að önnur kona skaut hana í magann. Mál gegn konunni sem skaut Jones í magann var fellt niður þar sem dómstóllinn taldi hana hafa hleypt af í sjálfsvörn.
Jones var handtekin á miðvikudag en sleppt gegn tryggingu á fimmtudag. Hún er ekki á sakaskrá og á fyrir sex ára gamalt barn.
Lögmenn hennar vefengdu málatilbúnað ákæruvaldsins þegar mál hennar var tekið fyrir í gær. Jones hefði þurft að vita að hún yrði skotin í magann þegar hún hóf rifrildið til þess að kenning ákæruvaldsins um að hún hafi vísvitandi ætlað að binda enda á meðgöngu sína gengi upp, að því er segir í frétt Reuters.
Benda verjendur Jones á að lög í Alabama kveði á um að ekki megi ákæra konur vegna „ófædds barns“ hennar. Alabamaríki samþykkti stjórnarskrárbreytingu í fyrra sem gaf fóstrum fullan lagalegan rétt og vernd á við manneskju. Í vor samþykktu ríkisþingmenn þar svo ströngustu þungunarrofslög í Bandaríkjunum á grunni stjórnarskrárákvæðisins.
Saksóknarar hafa enn ekki ákveðið hvort Jones verður sótt til saka fyrir manndráp, vægari glæp eða hvort málið gegn henni verði fellt niður.
