Tryggvi Snær Hlinason átti stórgóðan leik þegar Zaragoza vann sigur á toppliði Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.
Tryggvi skoraði 12 stig, tók auk þess 9 fráköst og gaf eina stoðsendingu. Hann var á meðal stigahæstu manna í liði Zaragoza, Nemanja Radovic var stigahæstur með 14 stig.
Leikurinn fór 84-67 fyrir Zargoza en heimamenn höfðu verið yfir í leiknum nær allan tímann. Real Madird hékk þó í heimamönnum fram undir lok fyrri hálfleiks, staðan var 42-33 í hálfleik.
Gestirnir gerðu áhlaup í upphafi seinni hálfleiks en Zaragoza svaraði því áhlaupi og kæfði svo leikinn í upphafi fjórða leikhluta. Að lokum varð sigurinn mjög öruggur.
Þetta var aðeins annar tapleikur Real Madrid á tímabilinu en Zaragoza er nú aðeins einum sigri frá Real á toppnum.

