Lífið

Stjórnsemin er skepna

Birgir Örn Steinarsson skrifar
„Sama hversu vel maður getur þjálfað það að vera flottur í blaðaviðtölum eða að stjórna stærðarinnar áhöfnum í Ameríku þá er maður ekki leikstjóri síns eigin lífs,“ segir Baltasar.
„Sama hversu vel maður getur þjálfað það að vera flottur í blaðaviðtölum eða að stjórna stærðarinnar áhöfnum í Ameríku þá er maður ekki leikstjóri síns eigin lífs,“ segir Baltasar. vísir/vilhelm
Nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks verður frumsýnd í dag á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto.

Íslendingar eru orðnir svo vanir því að fá fréttir af leikstjóranum og samstarfi hans við alþjóðlegar kvikmyndastjörnur á borð við Denzel Washington, Jake Gyllenhaal, Mark Wahlberg, Josh Brolin, Aliciu Vikander, Keiru Knightley og flesta sem vettlingi geta valdið í Hollywood að það telst nánast til tíðinda að hann skuli gera mynd hér á litla Íslandi með íslenskum leikurum og áhöfn.

Það að hann hafi svo ákveðið að birtast sjálfur á hvíta tjaldinu eftir átta ára fjarveru gerir myndina einnig forvitnilega en síðast sáum við hann leika í Reykjavík-Rotterdam.

Í Eiðnum leikstýrir hann sjálfum sér en það hefur hann ekki gert síðan hann hlaut eldskírn sína sem kvikmyndaleikstjóri með 101 Reykjavík árið 2000.

Baltasar leikur hjartaskurðlækninn Finn í myndinni. Hann horfir upp á það þegar dóttir hans Anna (leikin af Heru Hilmarsdóttur) verður ástfangin af Óttari (sem Gísli Örn Garðarsson leikur) sem er tengdur undirheimum Reykjavíkurborgar. Þegar ást þeirra ber rotinn ávöxt neyðist Finnur til að takast á við sinn innri mann.

Áhrif úr eigin reynsluheimi

Ólafur Egilsson var undir áhrifum úr eigin reynsluheimi þegar hann skrifaði handritið og Baltasar segist hafa tengt við persónu og breyskleika Finns. Mann sem hefur nær algjöra stjórn á eigin lífi en er svo gjörsamlega bjargarlaus þegar kemur að lífi hans nánustu.

„Það hljómar kannski svolítið hrokafullt en þegar ég fór að skoða þetta þá fannst mér ég vera mjög heppilegt val í hlutverkið,“ segir Baltasar. „Mér fannst þessi maður að sumu leyti líkur mér. Hann hefur notið mikillar velgengni í starfi. Hann telur sig geta stjórnað hlutum í lífi sínu, og jafnvel í lífi annarra vegna starf síns, en svo þegar kemur að hans nánustu þá finnur hann til smæðar sinnar og valdleysis. Ég tengi við þetta. Sama hversu vel maður getur þjálfað það að vera flottur í blaðaviðtölum eða að stjórna stærðarinnar áhöfnum í Ameríku þá er maður ekki leikstjóri síns eigin lífs.“

Baltasar vinnur við það að segja öðrum hvað þeir eigi að gera, hvar þeir eigi að vera og hvernig þeir eigi að haga sér í vissum aðstæðum. Hann vinnur einnig við það að veiða hugmyndir úr tóminu og ákveða hverjar þeirra séu líklegastar til þess að ná blóma. Það er því kannski ekkert svo undarlegt að hann detti stundum í leikstjórann á sínu eigin heimili.

„Stundum kemur maður heim eftir að hafa verið á setti í Bandaríkjunum og her manna er búinn að hlýða manni eins og maður sé Guð almáttugur. Maður er búinn að vera stjórna mönnum eins og Denzel Washington og jafnvel hann er búinn að beygja sig fyrir manni. Svo er maður í þeirri orku þegar heim er komið en þar gilda önnur lögmál. Það getur tekið tíma fyrir mann að stilla sig af,“ segir Baltasar.

„Ég á erfitt með að hemja mig þegar hlutir fara ekki á þann hátt sem ég vil. Ég hef nú lært að díla við það betur með aldrinum en hér áður fyrr þá barði ég menn og rakst utan í fólk ef það gat ekki verið sammála mér um hvernig hlutir ættu að vera. En það var nú meira tengt drykkju og öðru sem ég hef náð að slíta mig frá.“

Kannast við svipaðar aðstæður úr eigin lífi

Baltasar segir að persóna hans í Eiðnum eigi í sömu baráttu. Stjórnsemi sé skepna sem erfitt sé að temja. Þannig geti góðir menn sem vanir séu að halda um taum eigin lífs frekar kosið að ríða inn á myrk svæði en að sætta sig við eigin vanmátt gagnvart óviðráðanlegum aðstæðum.

„Sumir telja að hið illa komi að utan en yfirleitt er það nú þannig að hið illa kemur að innan. Í hverjum og einum okkar getur leynst mikil illska og ólga sem eru ekkert endilega fyrirsjáanlegar. Ákveðnar aðstæður geta kallað fram svoleiðis hluti. Ég er þannig maður að ég er eiginlega hræddastur við sjálfan mig. Ég er ekkert endilega hræddur við hvað aðrir menn gera mér. Ég er miklu hræddari við hvernig ég myndi haga mér í ákveðnum kringumstæðum. Það er talað um að lofthræðsla sé ekki hræðsla við að falla, heldur hræðslan við að stökkva. Það þekki ég mjög vel – að þurfa að spyrja sjálfan mig hvort ég sé nægilega brjálaður til þess að stökkva fram af brúninni.“

Það var víst þrautaganga systur handritshöfundarins Ólafs Egilssonar sem varð honum innblástur að sögunni. Baltasar kannast sjálfur við svipaðar aðstæður úr eigin lífi.

„Einn besti vinur minn fór og náði í dóttur sína með haglabyssu. Hún er búin að vera í afvötnun núna í ár og er að ná sér á strik en það er búið að vera alveg svakalega erfiður tími hjá honum. Svo var líka eitt svona mál í móðurfjölskyldu minni. Sá maður lenti í fangelsi í langan tíma. Maður hefur heyrt um gullfallegar stúlkur sem fara að deita glæpamenn úr þessum heimi. Maður hefur heyrt af ansi skrautlegum skírnarveislum þar sem á einum endanum er kannski fólk úr leiklistinni en í hinum endanum fólk úr glæpaheiminum. Svo er Gísli Pálmi tengdur fjölskyldunni. Það eina sem ég vil segja um það mál er að mér finnst fólk á netinu tala heldur óvarlega um það sem kom fyrir þar. Það má ekki gleyma því að þetta eru manneskjur þó svo að þær séu auðvitað að leika sér að eldinum.“

Baltasar segist hafa fengið góðar viðtökur frá þeim sem hafi séð Eiðinn. Einn þeirra lýsti myndinni sem „Taken í raunveruleikanum“.

„Barnið er tekið af þér en ekki með valdi. Það fær þráhyggju fyrir einhverjum aðila. Allt það sem þú hefur verið að reyna að ala í brjósti þess með uppeldinu fer út um gluggann og þú missir algjörlega tökin á því. Slík eru átök ástarinnar. Hvar heldurðu í og hvar sleppir þú? Eftir að hafa farið í gegnum tvær unglingsstelpur þá get ég sagt þér að ég er með háskólagráðu í því að reyna. Á aldrinum 13 ára til 19, þá verður mjög erfitt fyrir pabbann að ná til dætra sinna. Ef maður hefur gengið í gegnum það tvisvar er maður búinn að eyða lengri tíma í að kynnast slíku en það tekur að fá háskólagráðu.“

Ekki ósvipað að gera sjálfsmynd

Baltasar segir að þegar leikstjórar ákveði að leikstýra sjálfum sér sé það ekki ósvipað og þegar listmálari geri sjálfsmynd.

„Þetta er afar persónuleg túlkun á verkinu. Menn geta farið yfir um í sjálfsdýrkun sem getur verið hættulegt ef menn geta ekki skilið þarna á milli. Ég fékk óbragð í munninn eftir að hafa gert þetta í 101 Reykjavík en þar gleymdi ég eiginlega að leikstýra sjálfum mér og rumpaði því bara af.

„Ég held að ég sé meiri leikstjóri en leikari. Ég fæ meira út úr því að upplagi en að leika. Það eru ekkert margir leikstjórar sem hafa sjálfir leikið aðalhlutverk í bíómyndum. Svo líður tíminn og mér fannst eins og ég hefði misst þá tengingu við sjálfan mig. Þetta snýst því ekki um að stækka en ég hef ennþá mikla þörf fyrir það að gera betur. Það var búið að bjóða mér að gera The Mummy og Fast & the Furious og ef ég hefði viljað stækka þá hefði ég bara farið þangað. Í staðinn fór ég heim og gerði Eiðinn, til þess að reyna að ná betra sambandi við listina og gera betur. Ég keyri mig áfram á því að vilja gera betur.“

Viðtalið birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Ætlaði að bjarga litlu systur

Fyrir nokkrum árum komst ekkert annað að í lífi Ólafs Egilssonar en að reyna að bjarga yngri systur sinni úr heimi fíkniefna.

Á sviðinu með Gísla Pálma fyrr um kvöldið

Rapparinn Gísli Pálmi Sigurðsson beitti skyndihjálp á vin sinn er hann missti meðvitund aðfaranótt sunnudags. Annar maður lést sama kvöld. Lögregla rannsakar hvort lyfið fentanýl hafi komið við sögu í báðum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.