Skoðun

Verð til bænda of hátt!

Þórólfur Matthíasson skrifar
Tvær fréttir á vef Bændablaðsins vekja athygli. Í annarri, dagsettri í lok júlí, er sagt frá því að sauðfjárbændur vilji 12,5% hækkun á skilaverði í haust, segja tilkostnað hafa hækkað. Í hinni, dagsettri í lok ágúst, er sagt frá því að sauðfjárbændur mótmæli harðlega (12%) lækkun afurðaverðs.

Sauðfjárbúskapur á Íslandi stendur frammi fyrir margþættum vanda. Dæmi: Afleiðingar ofbeitar á afréttum og stórhættuleg lausaganga fjár á fjölförnum þjóðvegum eru ljóslifandi hverjum þeim sem ferðast um landið. Lítill vilji virðist meðal sauðfjárbænda til að takast á við þessi vandamál. Annar vandi snýr að því að neysla sauðfjárafurða hefur dregist stórlega saman á sama tíma og bændur kvarta sáran undan skilaverðinu.

Offramleiðsluvandinn tengist ofbeitarvandanum og neyslusamdrættinum. Tölur segja sína sögu:

Neyslan var nálægt 80% af heildarframleiðslunni en er nú ríflega 65%. Offramleiðslan hefur aukist úr að vera 30% umfram innanlandsmarkaðinn í að vera rösklega 50%.

Sífelld markaðsátök erlendis hafa hugsanlega skilað söluaukningu, en sílækkandi skilaverð dugar ekki til að standa undir kostnaði við framleiðsluna og markaðssetninguna. Markaðsátök (að ekki sé sagt markaðsofbeldi vegna innflutningstálmana) innanlands hafa hugsanlega hægt á samdrætti innlendu neyslunnar. En hverjum manni sem skoðar strauma í kjötneyslu nágrannaþjóða má vera ljóst hvert stefnir. Neysla Dana og Svía nemur 1 kg af kjöti af sauðfé á ári, neysla Norðmanna nemur um 5 kg á mann á ári. Sé horft 10-20 ár fram í tímann er líklegt að neysla á mann á Íslandi verði ekki meiri en 10 kg á ári, kannski nær 5 kg á mann ári. Þ.e.a.s. heildarneyslan ætti að vera á bilinu 2-4 þúsund tonn á árunum 2026 til 2036. Ef ekki á að halda áfram á slóð gegndarlausrar offramleiðslu þarf að minnka sauðfjárstofninn á landinu um 60–80% á næstu 10-20 árum. Augljóslega er verðhækkun til bænda ekki hluti af því aðlögunarferli. Þar þarf önnur meðöl til. Þetta mættu þingmenn hafa í huga nú þegar þeir fjalla um búvörusamninga.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×