Íslenski boltinn

KSÍ útdeilir tugum milljóna til að verja starf yngri flokka

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum í síðustu viku að flýta styrkgreiðslum til aðildarfélaga sem ætlaðar eru til að efla knattspyrnu barna og unglinga.

Þetta ákvað KSÍ að gera til að vinna á móti afar neikvæðum, efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins.

Um er að ræða greiðslur til þeirra félaga sem ekki eiga fulltrúa í efstu deild karla (Þau félög fengu á dögunum fyrirframgreiðslu vegna sjónvarpssamninga). Framlagið hefur jafnan verið greitt samhliða framlagi frá UEFA til félaga í efstu deild karla, á haustin.

KSÍ flýtir greiðslu 75% af áætlaðri upphæð og er skýrt tekið fram að peningarnir séu ætlaðir til barna- og unglingastarfs. Dæmi um kostnaðarliði séu laun þjálfara, ferðakostnaður, aðstöðuleiga og kaup á tækjum og áhöldum. Stjórn KSÍ áskilur sér rétt til að kalla eftir staðfestingum frá aðildarfélögum um ráðstöfun styrksins.

Þau félög sem eiga fulltrúa í efstu tveimur deildum kvenna og 1. deild karla fá hæstu greiðslurnar nú, eða 1,8 milljón króna. Félög í 2. deild karla fá 1.125 þúsund, og félög í 3. og 4. deild karla, og 2. deild kvenna, fá 750 þúsund. Þá fá félög sem senda sameiginleg lið til leiks í meistaraflokki, en eru með barna- og unglingastarf, 450 þúsund krónur. Sjá lista yfir félögin hér.

Borghildur Sigurðardóttir, formaður fjárhags- og endurskoðunarnefndar KSÍ, útskýrði tillöguna með eftirfarandi hætti á fundi stjórnar:

Fjárhagsnefnd og formaður KSÍ leggja til við stjórn sambandsins að greiðsludegi á 75% barna og unglingastyrks til handa félögum i neðri deildum sambandsins verði flýtt til 17. apríl. Erum við vel meðvituð um þann fjárhagsvanda sem félög sambandsins eru að glíma við vegna áhrifa Covid 19 og er tillagan lögð fram til að styðja félögin við að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þjálfurum í unglingastarfi sínu en nú þegar er farið að bera á erfiðari innheimtu æfingagjalda vegna ástandsins i samfélaginu. Um er að ræða tæpar 46 milljónir króna.

Samkvæmt lista yfir úthlutanirnar í frétt á vef KSÍ nemur heildarupphæðin hins vegar 42.750.000 krónum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×