Innlent

Frost á mest­öllu landinu í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Spákortið fyrir klukkan 14 í dag, eins og það leit út um klukkan 8 í morgun.
Spákortið fyrir klukkan 14 í dag, eins og það leit út um klukkan 8 í morgun. Veðurstofan

Veðurstofan spáir vestan kaldi eða stinningskaldi í dag, 8 til 13 metrum á sekúndu, og stöku skúrum eða éljum. Landsmenn mega búast við að það lægi í kvöld og að í nótt verði svo frosti á mestöllu landinu.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði suðvestan gola eða kaldi á morgun.

„Dálitlar skúrir, en þurrt og bjart veður austanlands. Hiti 2 til 10 stig. Ákveðin sunnanátt á föstudag og lítilsháttar rigning á Suður- og Vesturlandi, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Það hlýnar heldur og á laugardag er útlit fyrir svipað veður.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Sunnan 5-15 m/s, hvassast við vesturströndina. Víða léttskýjað á Norður- og Austurlandi, annars skýjað og súld með köflum. Hiti 5 til 10 stig.

Á laugardag: Sunnan og suðaustan 10-15 m/s. Léttskýjað norðaustantil, en súld eða dálítil rigning sunnan- og vestanlands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Suðlæg átt og rigning, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 1 til 8 stig, svalast norðvestantil. Dregur úr úrkomu og kólnar um kvöldið.

Á mánudag og þriðjudag: Suðaustlæg átt og milt veður. Rigning með köflum, en úrkomulítið norðanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×