Danski handboltamaðurinn og handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen birti í morgun draumalið íslenska landsliðsins frá aldamótum.
Undanfarna daga hefur Boysen sett sama draumalið ýmissa liða og tók núna það íslenska fyrir.
Nokkra athygli vakti að Alexander Petersson hlaut ekki náð fyrir augum Boysens. Hann valdi Ólaf Stefánsson í stöðu hægri skyttu og Arnór Þór Gunnarsson í hægra hornið.
Aðspurður af hverju Alexander væri ekki í liðinu sagðist Boysen líta á hann sem skyttu og að hans mati væri Arnór betri hornamaður. Alexander hefur lengst af ferilsins spilað sem skytta en leysti stöðu hornamanns í sókn meðan Ólafur lék með landsliðinu.
Alexander og Ólafur, ásamt Ásgeiri Erni Hallgrímssyni, mynduðu hægri væng íslenska liðsins sem vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM tveimur árum síðar.
Guðjón Valur Sigurðsson er að sjálfsögðu í vinstra horninu í úrvalsliði Boysens, Aron Pálmarsson er vinstri skytta, Snorri Steinn Guðjónsson á miðjunni, Róbert Gunnarsson á línunni, Björgvin Páll Gústavsson í markinu og Sverre Jakobsson varnarmaður. Þjálfari er Guðmundur Guðmundsson.
My Icelandic national dream team since 2000.
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) April 15, 2020
Impact, level, years & achievements are taken into consideration.
Players like Petersson, Geirsson, Atlason, Hallgrímsson, Dagur & Sigfus Sigurðsson, Hrafnkelsson, Jóhannesson, Ólafsson & Karason are left out.
Your thoughts? pic.twitter.com/sfA1ZU6zme
Boysen nefndi einnig eftirtalda leikmenn sem voru nálægt því að komast í liðið: Alexander, Loga Geirsson, Arnór Atlason, Ásgeir Örn, Dag Sigurðsson, Sigfús Sigurðsson, Guðmund Hrafnkelsson, Patrek Jóhannesson, Þóri Ólafsson og Rúnar Kárason.
Boysen leikur með Elverum í Noregi þar sem hann var samherji Sigvalda Guðjónssonar sem leikur með Kielce í Póllandi á næsta ári.