Innlent

Skimanir fyrir mótefnum hafnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kári Stefánsson á fundinum í dag.
Kári Stefánsson á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Íslensk erfðagreining hefur þegar hafið skimanir fyrir mótefnum fyrir kórónuveirunnar í blóði hjá fólki. Búið er að skima fyrir mótefnum hjá um 800 manns og er ætlunin að gefa í skimunina á næstunni.

Þetta kom fram í máli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag.

Áður hefur komið fram í máli sóttvarnarlæknis að mótefnamæling gæti gefið góða mynd af því hversu raunverulega útbreidd kórónuveiran sé og hafi verið hér á landi. Endurtók hann þessi orð á fundinum í dag og sagði að mótefnamæling að viðbættum þeim skimunum sem þegar hafa farið fram ættu að gefa góðar upplýsingar um hina raunverulega útbreiðslu veirunnar.

Sagði Kári að það mynstur sem sést hafi við mótefnamælingunni hjá ÍE væri að meirihluti þeirra sem hafa sýkst séu með tvenns konar mótefni.

Þá bætti Þórólfur við að bæði skimanir fyrir veirunni, sem gerðar hafa verið fram að þessu, og könnun á mótefnastöðunni mun gefa skilning á raunverulegri hættu á að sýkingin geti blossað upp aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×