Erlent

Þjóðverjar byrja að aflétta höftum í skrefum

Kjartan Kjartansson skrifar
Merkel kynnti áform um afléttingu aðgerða gegn faraldrinum á blaðamannafundi í dag.
Merkel kynnti áform um afléttingu aðgerða gegn faraldrinum á blaðamannafundi í dag. Vísir/EPA

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kynnti áform um að aflétta hægt og rólega aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í dag. Opna má ákveðnar verslanir aftur strax í næstu viku og þá verður leyft að opna skóla í skrefum í byrjun maí.

Reglur um félagsforðun verða inn í gildi til að minnsta kosti 3. maí og mælti Merkel eindregið með því að fólk gengi með grímur á opinberum stöðum. Sagði kanslarinn að „brothættur millibilsárangur“ hefði náðst gegn faraldrinum með ströngum aðgerðum. Þjóðin yrði þó að halda sínu striki áfram því ekki mætti mikið út af bregða.

Stórar samkomur verða áfram bannaðar til 31. ágúst og barir, kaffihús, veitingastaðir, kvikmyndahús og tónleikastaðir verða áfram lokaðir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Leyft verður að opna skóla í áföngum eftir 4. maí en öryggisreglur verða settar um frímínútur og skólarútur. Nemendur sem eru á leiðinni í próf verða settir í forgang við opnun skólanna. Þá má opna verslanir sem eru allt að 800 fermetrar ef þær gera sóttvarnaráðstafanir á mánudag. Hárgreiðslustofur mega aftur taka við viðskiptavinum 4. maí með sama fyrirvara.

Rúmlega 3.200 manns hafa látið lífið af völdum Covid-19-sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur í Þýskalandi og rúmlega 127.500 hafa greinst smitaðir.

Fleiri Evrópuríki hafa byrjað að létta á aðgerðum gegn faraldrinum, þar á meðal Danmörk, Spánn, Austurríki og sum svæði Ítalíu. Á Íslandi verður byrjað að létta á samkomubanni og öðrum takmörkunum 4. maí.


Tengdar fréttir

Merkel þakkar Þjóðverjum en ekki verður slakað á aðgerðum

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir Þjóðverja hafa tekið vel í reglur sem settar voru til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu. Merkel sem heldur úti vikulegu hlaðvarpi þakkaði þjóð sinni fyrir viðbrögðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×