Erlent

Vilja fram­lengja út­göngu­bann um þrjár vikur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Matt Hancock, heilbrigðismálaráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í gær.
Matt Hancock, heilbrigðismálaráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í gær. EPA

Breska ríkisútvarpið BBC kveðst hafa heimildir fyrir því að breska ríkisstjórnin muni brátt tilkynna um þriggja vikna framlengingu á útgöngubanni.

Heilbrigðisráðherra landsins Matt Hancock hefur sagt að ótímabært sé að aflétta takmörkunum því Bretland væri ekki enn búið að ná toppnum því staðfestum tilfellum fari enn fjölgandi.

Hancock sagði ljóst að veiran yrði hömlulaus ef stjórnvöld myndu aflétta þeim takmörkunum sem settar hafa verið á breskan almenning til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.

Á sama tíma og Bretar eru sagðir hyggja á framlengingu útgöngubanns er Bandaríkjastjórn að skipuleggja hvernig afléttingu takmarkana verður háttað, þrátt fyrir að flest staðfest tilfelli séu í Bandaríkjunum. Síðasta sólarhringinn létust hátt í 2.600 manns úr Covid-19.

Á blaðamannafundi í gær sagðist Bandaríkjaforseti ætla að tilkynna í dag, að loknum fundi með ríkisstjórum, um ákveðnar viðmiðunarreglur sem öll ríki Bandaríkjanna eiga að hafa að leiðarljósi við afléttingu takmarkana. Þá sagði hann einnig að sum ríki gætu aflétt takmarkanir fyrr en önnur.

Slæmar fréttir hafa hins vegar borist frá Þýskalandi en 315 manns létust þar úr Covid-19 síðasta sólarhringinn sem er mesti fjöldi dauðsfalla á einum sólarhring frá því veiran barst til Þýskalands. Staðfest tilfelli síðasta sólarhringinn voru 2.866 talsins en alls hafa 130.450 tilfelli verið staðfest í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×