Erlent

Trump lætur enn einn hátt­setta em­bættis­manninn fjúka

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steve Linick, aðaleftirlitsmann í bandaríska utanríkisráðuneytinu.
Steve Linick, aðaleftirlitsmann í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Vísir/getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið Steve Linick, aðaleftirlitsmann í utanríkisráðuneytinu, sem sagður er hafa staðið að rannsókn á mögulegum embættisbrotum Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Linick var látinn vita af starfslokunum seint í gærkvöldi en eftirmaður hans verður Stephen Akard, náinn bandamaður Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.

Erlendir fjölmiðlar hafa eftir heimildum innan bandaríska stjórnkerfisins að rétt áður en Linick var látinn fjúka fyrirvaralaust hafi hann hafið rannsókn á ásökunum í garð Pompeo. Ásakanirnar sneru að því að Pompeo hefði látið pólitískt skipaðan embættismann í utanríkisráðuneytinu sinna persónulegum útréttingum fyrir sig og eiginkonu sína, Susan.

Trump greindi frá starfslokum Linick í bréfi til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Þar lýsti hann mikilvægi þess að bera fullt traust til aðaleftirlitsmanna sinna. „Sú er ekki lengur raunin í tilfelli þessa aðaleftirlitsmanns,“ sagði Trump í bréfinu.

Trump hefur í embættistíð sinni rekið fjölda embættismanna sem sinnt hafa eftirliti með störfum ríkisstjórnarinnar. Í þeirra stað hafa iðulega verið skipaðir bandamenn forsetans, sem leggur mikla áherslu á að embættismenn sýni sér tryggð í starfi. Andstæðingar Trumps hafa gagnrýnt uppsögn Linicks harðlega. 

„Brottreksturinn er forkastanleg aðgerð forseta í viðleitni til að hlífa einum af sínum tryggustu stuðningsmönnum, utanríkisráðherranum,“ sagði Eliot Engel, Demókrati og formaður utanríkisnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×