Innlent

Ekkert verður af kórónuskimun Íslenskrar erfðagreiningar

Samúel Karl Ólason skrifar
Kári Stefánsson íslensk erfðagreining
Kári Stefánsson íslensk erfðagreining Vísir/Vilhelm

Íslensk erfðagreining mun ekki skima fyrir nýju kórónuveirunni og greina hana. Fyrirtækið bauðst til að hlaupa undir bagga með hinu opinbera og skima fyrir veirunni meðal fólks. Vísindasiðanefnd segir þó að til þess þyrfti fyrirtækið að sækja um leyfi þar sem skimunin yrði skilgreind sem vísindarannsókn.

Kári Stefánsson, eigandi ÍE, segir að það verði ekki gert. Fyrirtækið hafi ætlað að taka þátt í klínískri vinnu en ekki vísindarannsókn.

Markmiðið var að komast að því hvort veiran hafi dreifst hér á landi, án þess að yfirvöld hafi orðið þess vör. Alma Möller, landlæknir, sagði frá boði ÍE á blaðamannafundi í gær og sagði að það yrði einstakt á heimsvísu.

Í færslu á Facebook segir Kári að útlit hafi verið fyrir að boð ÍE yrði samþykkt.

„Það var okkar mat og annarra að það væri mikilvægt að geta fylgst með úbreiðslu veirunnar og því hvernig hún stökkbreytist þegar hún ferðast milli fólks,“ skrifaði Kári.

Hann segir þá ákvörðun að ekkert verði af skimuninni vera endanlega.

Það er illvígur veirufaraldur að ganga yfir landið. Það var okkar mat og annarra að það væri mikilvægt að geta fylgst...

Posted by Kari Stefansson on Saturday, 7 March 2020

Fimmtíu hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi þar af eru sjö innanlandssmit. Einn þeirra Íslendinga sem fengið hefur kórónuveiruna er eins árs gamalt barn.

Sjá einnig: Eins árs gamalt barn á meðal þeirra Íslendinga sem greinst hafa með kórónuveiruna

Síðustu daga hefur verið hætt við að halda fjölmargar samkomur eins og árshátíðir og einnig íþróttamót barna. Samkomubann hefur þó ekki verið sett á.

Í yfirlýsingu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að aldrei hafi staðið til að sýni sem hefðu komið til vegna skimunarinnar hefðu farið í lífssýnabanka fyrirtækisins, enda væri slíkt ekki í samræmi við lög.

Einungis hafi verið boðin fram klínísk aðstoð við að taka og greina sýni úr fólki sem er með einkenni sem gætu bent til veirusýkingar. Það átti að leiða í ljós hvort veiran væri að stökkbreytast.

„Íslensk erfðagreining greinir nú þegar um eitt þúsund sýni á ári frá Landspítalanum þar sem grunur leikur á sjaldgæfum erfðasjúkdómum eða veikindi eru af óþekktum orsökum. Sú samvinna hefur ekki verið leyfisskyld,“ segir í yfirlýsingunni.

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að Íslensk erfðagreining ætlaði aldrei að setja sýni sem hefði verið aflað vegna...

Posted by Íslensk erfðagreining on Saturday, 7 March 2020

Tengdar fréttir

Veronavélin lent í Keflavík

Flugvéin sem notuð var til að flytja hóp Íslendinga frá Veróna á Ítalíu er lent. Mikill viðbúnaður er í Keflavík en öll Ítalía er skilgreind sem áhættusvæði vegna kórónuveirunnar.

Skerða ýmsa þjónustu fyrir aldraða og fatlaða vegna veirunnar

Þjónustuskerðingin nær til allrar dagdvalar fyrir aldraða, skammtímadvalar fyrir fötluð börn, ungmenni og fullorðna einstaklinga, vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu fyrir fatlað fólk og félagsstarfs á vegum velferðarsviðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×