Körfubolti

Öll NBA-liðin 30 spila með sorgarbönd út tímabilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Stern með Michael Jordan.
David Stern með Michael Jordan. Getty

NBA deildin í körfubolta ætlar að minnast David Stern með afar sérstökum hætti það sem eftir lifir af 2019-20 tímabilinu.

David Stern lést 1. janúar en hann náði sér aldrei eftir að hafa orðið fyrir heilablæðingu á veitingahúsi á Manhattan í New York 12. desember. Stern var 77 ára gamall.

Allir sem hafa fylgst með eða komið að NBA-deildinni með einhverjum hætti á síðustu áratugum þekktu vel verk David Stern og hann hafði unnið sér inn gríðarlega virðingu með frábærum verkum.

Fráfall hans er því mikil áfall fyrir alla sem tengjast NBA-deildinni sem hefur einnig sést á viðbrögðum leikmanna og annars NBA fólks á samfélagsmiðlum síðustu tvo daga.

Það er oft venja að lið tengdum mönnum sem falla frá, spili með sorgarbönd í næsta leik á eftir en NBA-deildin ætlar að stíga mörgum skrefum lengra.



Öll liðin þrjátíu í NBA-deildinni og dómararnir líka munu spila með sorgarbönd á keppnistreyjum sínum út tímabilið.

Það efast enginn um það sem David Stern gerði fyrir NBA-deildina en hann reif hana upp úr miklum erfiðleikum í upphafi níunda áratugsins og gerði hana með hjálp góðra manna að einni vinsælustu deild í heimi.

David Stern var fjórði yfirmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar en hann tók við 1. febrúar 1984 og lét síðan af störfum 31. janúar 2014. Larry O'Brien var á undan honum en Adam Silver tók við af Stern.

David Stern hóf fyrst að vinna fyrir NBA-deildina árið 1978 sem lögmaður hennar en aðeins tveimur árum síðar var hann kominn í valdastöðu innan deildarinnar. Hann var því farinn að hafa mikil áhrif áður en hann gerðist yfirmaður NBA deildarinnar árið 1984.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×