Innlent

Telur að rakningarforritið komi sterkt inn á lokametrunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alma Möller er landlæknir.
Alma Möller er landlæknir. Mynd/Lögreglan á höfuðborgasvæðinu

Alma Möller landlæknir hvetur þá sem enn hafa ekki náð sér í smitrakningarforrit landlæknis til þess að gera það. Það geti komið sterkt inn nú þegar smitum fer fækkandi og þegar slakað verði á klónni hvað varðar takmörkunum á samkomum.

Alls hefur forritinu verið hlaðið niður í 133 þúsund símtæki en betur má ef duga skal að sögn Ölmu á daglegu upplýsingafundi almannavarna í dag´

Rakningarforritið, sem heitir rakning Rakning C-19 og er aðgengilegt í App Store og Play Store, er hlaðið niður á símtæki og vistar ferðir fólks tvær vikur aftur í tímann. Ef smit kemur upp getur Smitrakningateymi sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra óskað eftir því að fá aðgang að staðsetningargögnunum.

Þó að faraldurinn sé í rénun hér á landi er það þó, að mati Ölmu, ekki svo að forritið sjálft tapi gildi sínu, þvert á móti.

„Við höldum að notkun appsins verði ekki síst mikilvægari þegar fram líður og smitum fer að fækka. Við förum kannski eitthvað að slaka á og munum síður ferðir okkur. Það er einmitt það sem appið gerir, það hjálpar okkur að muna hvar við höfum verið,“ sagði Alma.

Hvatti hún þá sem eru efins um persónuvernd í tengslum við forritið að skoða þær upplýsingar gaumgæfilega. Upplýsingarnar sem forritið visti séu eingöngu notaðar með samþykki notandans og þá aðeins í þeim tilgangi að rekja ferðir hans í tengslum við smitrakningu.

„Ég vil hvetja þá sem enn hafa ekki sótt sér appið að kynna sér um hvað það snýst á til dæmis á Covid.is. Við teljum að með þessu tvöfalda samþykki sem notað er og með því að nota einungis gps-gögn þá sé verið að tryggja öryggi og persónuvernd eins og sæmir lýðræðisþjóð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×