Skoðun

Karlar fastir í eigin sköpun og kenna konum svo um

Matthildur Björnsdóttir skrifar

Það er með ólíkindum sorglegt að sjá eldri karlmenn eins og Arnar Sverrisson kenna konum um þau sérkennilegu lög sem karlkyn sömdu fyrir  sjálfa sig um samskipti sín við konur um aldir, sem hann gerir með fyrirsögninni „Lagaleg kúgun karla”. Hún er sorglega sjálfmiðuð frá blindum spotta þeirra sem telja sig eiga að ráða um aldir og ævi.

Það hafa verið örfá tilfelli í heiminum þar sem því var öfugt farið, en karlveldið ruddist svo inn og tók yfir. Konur í Phillipseyjum hafa víst eignarhald á húsum og slíku sem er viss undantekning í heiminum. Og það voru drottningar fyrir löngu sem réðu einhverju en lítið er vitað um að lög séu til sem þær hafi samið til að bæta hlut kynsystra sinna. Þau lög sem karlar skrifuðu til að hygla konum voru almennt meira karlheilar til að halda eigin völdum yfir þeim.

Ég er ekki neinn sérfræðingur í sögu, en maðurinn minn hefur fylgst með henni alla ævi og hefur sagt mér þessi atriði um kvenveldi fyrr á tímum.  Það hefur verið smá ögn miðað við yfirgangssemi karlaveldisins.

Það er á hreinu að karlveldið hefur verið nálægt 98 prósentum ráðandi í heiminum um aldir. Það er greinilegt að sumum karlmönnum finnst erfitt að kyngja því að það sé að breytast. Það er leitt því að það ætti að auðvelda þeim lífið og sérstaklega stressið.

Það er greinilegt að heilabúið í sumum er enn statt í steinöld hvað viðhorf til kvenna sé, þó að líkaminn sé hér árið 2019.

Auðvitað er mikið af þeim lögum sem þeir sömdu fyrir sjálfa sig fyrr á árum, enn í gildi. Og innihald þeirra hefur setið í viðhorfum fólks lengur en hefði átt að vera, af því að heilabúin hafa meðtekið það.

Það að konur áttu ekki og máttu ekki vinna fyrir sér sjálfstætt utan heimilis, af því að karlmenn vildu fangelsa þær heima. Þýddi það greinilega að karlinn varð að sjá fyrir þeim. Og skrifuðu lög um það.

Það hentaði þeim auðvitað vel, af því að þá upplifðu þeir að hafa yfirhöndina.

Með yfirhöndinni koma hinsvegar líka misgóðar byrðar. Svo að þá er að velja?

Vil ég sleppa konunni til að gera það sem hún vildi til að njóta hinna ýmsu hæfileika sinna, og líka til að afla eigin tekna. Eða eru völd mín yfir henni mikilvægari fyrir Egóið í mér?.

Það að horfa bara á þetta atriði með þá stöðu sem konur lentu í, sýnir skort á víðari innsýn og skilningi á vefnum sem karlar ófu sjálfum sér til að sýnast kvenvænir. Þegar það var í raun í þeirra eiginn hag að hafa það þannig. Konan var þá til staðar til að þjóna þeim með atriði sem þeir hefðu oftast getað gert sjálfir, en töldu sig yfir slík verk hafna. Og því miður erum við enn að heyra um misþyrmingar á konum af mönnum sem eru með þau fornu viðhorf.

Gömlu mynstrin eru byrjuð að flosna upp

Hver er þá hugsunin um konu sem var gift lækni á síðustu öld. Hún fór að vinna úti sem miðaldra kona, af því að læknirinn sem vann mikið til sjálfstætt hafði ekki lagt nærri nógan pening til hliðar í sjóð fyrir elliárin.

Þau hefðu hreinlega soltið í ellinni og kannski ekki getað fengið þá læknishjálp sem þau þurftu í ellinni, ef hún hefði ekki nýtt vélritunarhæfileika og kunnáttu í ensku.  Hæfileika og menntun sem veittu henni þau laun sem þurfti til að brúa bilið. Þau veittu þeim þau þægindi sem þau höfðu verið vön á meðan hann gat unnið, og síðar líka í ellinni. Þau laun komu sér svo sannarlega vel fyrir þau þegar hann varð svo seinna algerlega fatlaður frá heilablóðfalli. Hún kunni líka mun meira um peninga en hann.

Það er greinilegt í dag, að þetta dæmi er ekki eins og Arnar talar um því að ótal konur eru að lifa undir fátækra-mörkum, þar sem þeir menn sem geta hafa verið makar þeirra, og voru í lífi þeirra, eru annaðhvort dánir eða hurfu til annarra kvenna. Svo að þær fá ekki neitt frá þeim mönnum og algera smánarlús frá ríkinu, þó að þær hafi skaffað þjóðinni marga þegna.

Ég er ekki neinn sérfræðingur í þessum lögum, en hef vitnað reynslu kvenna í gegn um árin, og er ekki að vitna þau lög sem Arnar talar um í lífsferli þeirra. En tel að þau hafi breyst.

Þegar ég skildi um árið, fékk ég að halda íbúðinni af því að ég sá um börnin, en ég fékk enga meðgreiðslu fyrir mig ofan á það. En ég fékk meðlag með börnunum eins og reiknað er með. Með íbúðina var það líka ég sem hafði meira peningavit, og sá um allt varðandi kaupin. Það var móðir hans sem sá að ég ætti að halda íbúðinni.

Höndlun peninga er ekki einkahæfileiki í körlum. Ég hafði meira af þeim eiginleikum en fyrrverandi eiginmaður.

Tími kominn fyrir umbreytingar

Því miður er greinilegt víða um heiminn, að gömul og úrelt lög hafa dagað uppi, og af því að enginn hugsaði nógu djúpt um ástandið til að sjá þörf fyrir breytingu til að endurskrifa þau. En nú eru margir að vakna.

Endurskrifun laga í anda nútímans krefst þá þess að jafnvægi sé í nýrri hugsun um þau.

Það er svo margt sem þarf að gera betur til að nýjum samborgurum sé vel sinnt. Þau munu erfa allt og þurfa góða leiðsögn fram á við.  Ef ungbörn eiga að vera alin upp á barnaheimilum, þá erum við líklegri til að vera að skapa hópsálir, en athyglisverða einstaklinga sem hafi upplifað sig elskaða og ræktaða af foreldrum. Og séu færir um að gera skapandi hluti fyrir samfélagið.

Þá væri æskilegast ef báðir foreldrar þegar þeir eru báðir til staðar, hefðu rétt á að skipta vinnuvikunni á milli sín svo að börnin fái aðferðir beggja foreldra í líf sitt.

Ég þekkti par hér sem gerði það þegar börnin komu og hafði faðirinn verið mjög spenntur fyrir að hitta börnin sín þegar þau kæmu í heiminn og vildi fá að vera með þeim á sama hátt og móðirin, og þeim tókst það með hann sem flugmann en hana í stjórnunarstarfi.

Tækifærin skapast þá fyrir börnin að kynnast feðrum sínum mun betur eða hinum samkynhneigða makanum, en margar fyrri kynslóðir hafa haft tækifæri til að kynnast þeim sem voru fyrirvinnur samkvæmt kröfum karlaveldisins. Og það krefst þá þess að launin dugi fyrir framfærslu.

Blindi spottinn í heilum sumra karla

Fórnarlambs viðhorfið er ekki gagnlegt fyrir betri framtíð karlmanna á þessum tímum. Það viðhorf ber þess merki að þeir karlmenn geti verið í einhverskonar innri andlegu sjálfheldu, í stað þess að sjá nýjar leiðir til að lifa lífinu.

Karlar eru í raun oft á sorglegan hátt fórnarlömb sinna eigin gerða, og þarfa fyrir völd.

Karlkyn ákvað að þannig ætti það að vera, af því að það væri flott og töff.

Karlmenn hafa auðvitað haft sína langtíma en um leið sjálfsköpuðu kúgun sem er eins og baggi á bakinu á þeim sem er að draga þá niður, en þeir sjá þann bagga ekki af því að hann er á baki þeirra. Og það birtist meðal annars í því að þeir og mannkyn hafði ekki gefið leyfi fyrir þá til að láta sjá sig tárast.

Það eru þeir sem bera mestu ábyrgðina á sínu eigin ástandi og dæmi, sem nú er verið að vinna við að leysa upp, öllum til ábóta. Og konur að opna sig fyrir óhollustuna í þessum hluta mismeðferðar á karlkyni um aldir.

Sá hluti karlmanna af eldri kynslóðum sem því miður hafa séð sig lenda á milli stafs og hurðar í þessu með konur í dag, og upplifa sig hafa tapað hlutverki sínu.

Svo rísa þeir upp á seinni tímum með þær sérkennilegu ásakanir að kenna konum um hvernig þau lög virka, í stað þess að sjá að slóðinn er þeirra sköpun og tími til að hreinsa þann slóða upp. Og það vel fyrir bæði kynin.

Nú geta þeir notið mýkri hliðanna sem þeir hafa oft snúið í andstæðu sína með ofbeldi, eða tilfinningalegum doða. Og það af því að þeir kunnu ekki aðrar aðferðir til að tjá hið innra tilfinningastríð.

Gleðjumst yfir ánægjulegum framförum í ungum mönnum

Það er yndislegt að upplifa nýja kynslóð karlkyns sem hafa annarskonar upplifun af lífinu, og elska að verja nægum tíma með börnum sínum. Þeir eru fegnir að geta jafnað sín tilfinningalegu dæmi á þann hátt hið innra sem ytra.

Við sáum dæmi um það á Dagblaðinu í vikunni, og ég sé mikið af því hér í Marion verslunarmiðstöðinni. Hefur Arnar ekki hitt neina af þeim?

Ég stoppaði í kaffibúð í Marion í vikunni, og spjallaði við unga feður með ung börn í kerrum, og sagði þeim hvað mér hlýnaði um hjartarætur við að sjá þá með börnin sín, af því að ég lifði það ekki á þeim tímum sem ég hafði ung börn og ekki með feður minnar eigin kynslóðar.

Þeir töluðu um hve mikið þeir elskuðu að vera með börnunum og það sást í öllu um þá. Og með feður sem virkilega elska og þrá að vera með börnum sínum, er verið að skapa meira jafnvægi í svo mörgu í börnum.

Mig dreymir um að framtíðin taki mikið meira mið af eiginleikum og hæfileikum burtséð frá kyni og hafi mun meira svigrúm fyrir fjölbreytni í því hvernig lífi fólk vilji lifa.

Þegar karlmenn hætta að verða að bæla sína fíngerðari hliðar, og leyfa sér að vinna og skilja allan skala tilfinningalegra orða í hollu flæði. Þá værum við smám saman að skapa ljúfara samfélag með einstaklingum sem virkilega þekkja sjálf sig.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands er dásamlegt dæmi um breytta tíma og frjálsari bönd hlutverka.

Hún er frábær leiðtogi þjóðar sinnar og maðurinn hennar nýtur þess að hafa það tækifæri að vera í föðurhlutverki í fyrsta sæti. Heima með barnið frá upphafi á meðan eiginkonan sinnir allri þjóðinni. Hlutverk sem hefur verið á hina hliðina um aldir.

Það verður athyglisvert að fylgjast með hvernig persónuleiki dótturinnar birtist út úr því jafnvægi og óvenjulegu stöðu að hafa móður sem er leiðtogi þjóðarinnar og föður sem er í megin foreldrahlutverkinu og hefur auðvitað báða foreldra í umönnun þessi fyrstu árin. Og að sleppa við að vera sett á stofnun allan daginn.

En samkvæmt mynd af henni í tímaritinu Women´s Weekly er ekki annað að sjá en hún sé í topp standi. Elskuð upp í topp af báðum foreldrum.

Þegar barnið fær yin og yang-karl og kvenorku í sömu skömmtum

Það að börn alist upp við að faðir sé í megin foreldrunar hlutverki skapar ábyggilega nýja tegund einstaklinga, eins og með föður Michelle Pyne sem vann Veðreiðakeppnina „Melbourne Cup” fyrir nokkrum árum síðan, og var alin upp af föður með tíu börn eftir að konan hans og móðir allra barnanna dó í bílslysi rétt eftir fæðingu Michelle.

Það verður vonandi næsta barátta með www.HeForShe.Org og #MeToo-# ÉgLíka og #Time Up og öðrum slíkum sem eru að vinna að betra tilfinningalífi mannkyns.

Ótal lög í ótal flokkum víða um heim þurfa að vera endurskrifuð. Það verður þá vonandi líka hluti af þessu að bæta mannlífið enn frekar

Sannleikurinn er samt sá því miður eins og ég hef nefnt áður, að það er viss hópur karlmanna, þó að ungir séu, sem hafa steinaldar heila, þegar kemur að jafnræði og jafnrétti á milli kynja. Þeir eru líka til hér í Ástralíu, eins og á Íslandi.

Vonin er sú að þeim mun fleiri karlmenn sem sýna aðrar hliðar og að hegðun örvi hugsanlega möguleika á að heilar þeirra hinna geti þróast frá steinaldar-heila-vírun, og verði nær því sem hentar okkar tímum.

Kvenkyn tjáist á margan hátt, og það sama á við um karlkyn og samkynhneigða, og er frá sköpun. Betur væri ef það væri hægt að hætta að sjá kyn sem óvin-eða eitruð.

Matthildur Björnsdóttir, Adelaide Suður-Ástralíu




Skoðun

Sjá meira


×