Veiði

32 fiska holl í Eldvatni

Karl Lúðvíksson skrifar
Hjörleifur Steinarsson með vænan birting úr Eldvatni.
Hjörleifur Steinarsson með vænan birting úr Eldvatni.
Á þessum árstíma fer fréttum af sjóbirtingslóðum yfirleitt fækkandi en það er samt ekki þannig að veiðin sé öll úti.

Það sem af er þessu vori hafi fréttir af góðri veiði verið reglulegar úr ánum fyrir austan og Veiðivísir átti svo sem von á því eins og aðrir að það færi að draga úr veiði en það er annað á teningnum. Hjörleifur Steinarsson og félagar voru við veiðar þar um helgina og gerðu fantagóða veiði en samtals lönduðu þeir 32 vænum birtingum.

"Við félagarnir fórum til veiða í Eldvatni í Meðallandi um síðustu helgi, við fórum af stað með hóflegar væntingar því að einhvern veginn bjóst maður við að meirihluti fisksins væri genginn til sjávar. Það er skemmst frá því að segja að við lentum í veislu! 32 fiskar á land á 4 stangir, allt 65- 82 cm fiskar með örfáum undantekningum" sagði Hjörleifur Steinarsson í samtali við Veiðivísi.

"Meirihluti veiðinnar var veiddur á púpu, uppstream, fiskur var mjög víða og boy ó boy sá var vel haldinn! Spikfeitir orkuboltar sem fóru niður á undirlínu trekk í trekk.
Staðirnir sem voru að gefa okkur best voru Hundavað, Þórðarvörðuhylur og Skurðsendi (Gamlahlíð). Eldvatnið er magnað veiðisvæði, gríðarfallegir veiðistaðir og umhverfið magnað, eitt af mínum allra uppáhalds. Veiðifélagarnir ekki af verri endanum, Róbert Þórhallsson, Helgi Jónsson,Haraldur Árni Haraldsson og Haraldur Haraldsson Jr." bætti Hjörleifur við.





×